Erlent

Báru kennsl á líkams­leifar sem TikTok-notendur fundu

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Líkamsleifarnar fundust af nokkrum unglingum sem voru að taka upp myndband fyrir samfélagsmiðilinn TikTok.
Líkamsleifarnar fundust af nokkrum unglingum sem voru að taka upp myndband fyrir samfélagsmiðilinn TikTok. Getty/Rafael Henrique/Donald Miralle

Lögregluyfirvöld í Seattle í Bandaríkjunum hafa borið kennsl á líkamsleifar tveggja einstaklinga sem fundust í síðasta mánuði af unglingum sem voru að taka upp myndband fyrir samfélagsmiðilinn TikTok.

Fórnarlömbin voru þau Jessica Lewis, 35 ára, og kærastinn hennar Austin Wenner, 27 ára. Talið er að parið hafi verið myrt og er málið nú rannsakað sem slíkt.

Unglingarnir sem fundu líkamsleifarnar komu auga á ferðatösku sem innihélt einn plastpokanna sem líkum parsins hafði verið komið fyrir í. Taskan fannst á strönd í vesturhluta Seattle borgar og gerði unglingarnir lögreglunni viðvart.

Í myndbandinu sem unglingarnir tóku upp þann 19. júní síðastliðinn sést ein stúlka úr hópnum opna ferðatöskuna, sem er svört á lit, með priki og kvarta yfir fnyknum sem steig upp úr töskunni. Myndbandinu deildu þau næsta dag á TikTok.

Unglingarnir segjast hafa farið á ströndina samkvæmt leiðbeiningum snjallforrits sem sendir notendur í handahófskennda ævintýraleit. „Við erum ánægð með að myndbandið sé í dreifingu. Við töluðum við krakkana sem tengjast málinu og þau deildu með okkur upplýsingum sem þau hafa undir höndum,“ sagði Mark Jamieson, rannsóknarlögreglumaður í Seattle.

„Krakkarnir fundu tösku á ströndinni sem lyktaði illa og hringdu í neyðarlínuna… Lögreglumenn mættu á staðinn eftir einn og hálfan tíma. Þeir rannsökuðu töskuna og komust að því að líklega væri um líkamsleifar að ræða og hringdu í kjölfarið í rannsóknarlögreglumenn og embætti réttarmeinafræðings,“ bætti hann við.

Annar poki fannst í sjónum en í honum voru einnig líkamsleifar að sögn fréttastofu CNN. Talið er að líkamsleifarnar hafi verið í pokunum í einhverja daga áður en þeir fundust. Hvorki hafði verið tilkynnt um hvarf Lewis né Wenner.

Gina Jaschke, frænka Lewis, leitaði til fjölmiðla og hvatti fólk til að stíga fram ef það hefði einhverjar upplýsingar um málið. „Þau voru bara venjulegt, gott fólk. Enginn á það skilið sem þau þurftu að líða,“ sagði hún í samtali við fréttastofu KIRO.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.