Innlent

Ekki for­svaran­legt að leggja allan kostnað á ferða­menn

Sylvía Hall skrifar
Páll Þórhallsson og Þórólfur Guðnason á upplýsingafundi í dag.
Páll Þórhallsson og Þórólfur Guðnason á upplýsingafundi í dag. Lögreglan

Páll Þórhallsson, skrifstofustjóri í forsætisráðuneytinu, segir kostnaðaráætlun heilbrigðisráðuneytisins gera ráð fyrir að heildarútgjöld vegna skimana á landamærum séu 2,5 milljarðar. Miðað var við að skimunin stæði í hundrað daga og að tvö þúsund sýni yrðu tekin á dag.

Kostnaðaráætlunin var til viðmiðunar þegar tekin var ákvörðun á því gjaldi sem ferðamenn þurfa að greiða fyrir skimun. Gjaldtakan átti að skila tveimur milljörðum ef miðað væri við tvö þúsund farþega á dag í hundrað daga sem greiddu um tíu þúsund krónur fyrir skimun.

Á upplýsingafundi Almannavarna í dag sagði Páll að ástæðu þess að tekjuhliðin væri hálfum milljarði lægri en kostnaðarhliðin vera að ekki þótti forsvaranlegt að leggja allan fjárfestingarkostnað á ferðamenn sem koma hingað til lands. Í kostnaðarmatinu væri gert ráð fyrir kaupum á búnaði og öðrum innviðum sem mun nýtast lengur en skimun stendur yfir.

Þá nefndi hann að einhver ávinningur fylgdi því að fá ferðamenn inn í landið á ný, til að mynda gjaldeyristekjur og fjölgun starfa í ferðaþjónustunni.

Allt óvissu háð

Tekjur vegna greiðsluþátttöku ferðamanna eiga að mæta útgjöldum ríkisins vegna launa starfsmanna sem sinna sýnatökum, búnaðar sem notaður er við skimanir, flutningskostnaðar, tölvubúnaðar og hugbúnaðarvinnu. Þá er einnig tekinn inn í matið kostnaður við greininguna sjálfa.

Páll segir kostnaðaráætlunina vera viðmið en allt sé óvissu háð í þessum efnum og það komi sífellt betur í ljós. Hann gerir því ráð fyrir því að útreikningarnir verði endurskoðaðir fljótlega.

Tekjurnar munu svo allar greiðast inn á reikning Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins sem mun sjá um að útdeila þeim milli þeirra stofnana og aðila sem koma að verkefninu.


Tengdar fréttir

Svona var 84. upplýsingafundurinn

Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra boðar til upplýsingafundar fyrir blaðamenn í dag klukkan 14:00 í húsakynnum landlæknisembættisins að Katrínartúni 2.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.