Fótbolti

Griezmann minnti á sig með gulli af marki í öruggum sigri | Sjáðu mörkin

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Langri bið Antoines Griezmann eftir marki lauk í gær.
Langri bið Antoines Griezmann eftir marki lauk í gær. getty/David Aliaga

Eftir að hafa byrjað á bekknum í tveimur leikjum í röð fékk Antoine Griezmann tækifæri í byrjunarliði Barcelona þegar liðið sótti Villarreal heim í spænsku úrvalsdeildinni í gær.

Griezmann þakkaði traustið og skoraði eitt marka Börsunga í öruggum 1-4 sigri. Mark franska heimsmeistarans var í glæsilegri kantinum.

Á lokamínútu fyrri hálfleiks gaf Lionel Messi boltann á Griezmann með hælnum. Frakkinn vippaði svo boltanum frá vítateigslínu yfir Sergio Asenjo, markverði Villarreal, og í slána og inn.

Þetta var fyrsta deildarmark Griezmanns fyrir Barcelona síðan 15. febrúar. Hann skoraði þá í 2-1 sigri á Getafe.

Barcelona náði forystunni strax á 3. mínútu í leiknum í gær. Pau Torres, varnarmaður Villarreal, skoraði þá sjálfsmark.

Gerard Moreno jafnaði fyrir heimamenn á 14. mínútu. Hann fylgdi þá eftir skoti Santis Cazorla sem Marc-André ter Stegen varði.

Barcelona náði aftur forystunni á 20. mínútu þegar Luis Suárez sneri boltann glæsilega í fjærhornið eftir undirbúning frá Messi. Þetta var 194. mark Suárez fyrir Barcelona en með því jafnaði hann við László Kubala á listanum yfir markahæstu leikmenn í sögu félagsins.

Eitt mark var skorað í seinni hálfleik. Það gerði hinn sautján ára Ansu Fati á 87. mínútu. Lokatölur 1-4, Barcelona í vil. Liðið er fjórum stigum á eftir toppliði Real Madrid þegar fjórum umferðum er ólokið í spænsku úrvalsdeildinni.

Mörkin úr leik Villarreal og Barcelona má sjá hér fyrir neðan.

Klippa: Glæsileg mörk í sigri Barcelona á Villarreal



Fleiri fréttir

Sjá meira


×