Innlent

„Ekki einungis fíklar sem neyta fíkniefna“

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Helgi Gunnlaugsson er sérfræðingur í afbrotafræðum.
Helgi Gunnlaugsson er sérfræðingur í afbrotafræðum. VÍSIR/VILHELM

Helgi Gunnlaugsson, prófessor í afbrotafræði var meðal gesta Kristjáns Kristjánssonar í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun. Þar ræddu þeir afglæpavæðingu fíkniefna en Helgi segir að sú staðreynd að ekki einungis fíklar neyti fíkniefna sé mögulega ákveðin fyrirstaða fyrir því að ganga alla leið í afglæpavæðingunni.

„Það sem ég held að gæti verið ákveðin fyrirstaða fyrir því að menn gangi alla leið er að við virðumst núna vera sammála því að gera eitthvað fyrir fíkla. Það eru eiginlega allir sammála því að það eigi ekki að refsa fíklum fyrir sjúkdóm sinn en það eru ekki bara fíklar sem nota fíkniefni. Það er mikil afþreyingarneysla á fíkniefnum í okkar samfélagi og ég hef það á tilfinningunni að það séu margir á Alþingi, pólitísku baklandi og jafnvel út um allt land sem vilja ekki að einhverju leyti gera það refsilaust fyrir unga fólkið okkar að neyta fíkniefna. Að menn eigi erfitt með að kyngja því að fara að líta framhjá því. Ég veit það frá kollegum mínum á Norðurlöndunum að þetta er ákveðin fyrirstaða þar fyrir því að ganga skrefið alla leið, að þá sé bara í lagi að neyta fíkniefna eins og hvert annað vímuefni,“ sagði Helgi Gunnlaugsson, prófessor í afbrotafræði.

Helgi vísar í viðhorfsmælingar og segir að samkvæmt þeim hafi Íslendingar töluverðar áhyggjur af fíkniefnavandanum.

„Meirihluti þjóðarinnar hefur verið fylgjandi þessari löggjöf eins og hún er hjá okkur í dag, en það sem ég hef séð á síðustu árum er að það er vaxandi stuðningur við nýjar leiðir eins og t.d. varðandi það að afnema refsingar fyrir vörslu og nýjasta mælingin, sem er frá því í fyrra, sýnir að það er þriðjungur þjóðarinnar sem vill sjá þessar breytingar. Ef við skoðum hverjir það eru þá eru það fyrst og fremst unga fólkið, meirihluti ungs fólks undir þrítugu vill ganga þetta skref sem þetta frumvarp gengur út á. Þannig að það er gerjun í þessum málaflokki og það er umræða og vaxandi stuðningur við að leita nýrra leiða,“ sagði Helgi.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.