Innlent

Ósátt með þau áform að þrír búsetukjarnar fyrir fatlað fólk verði í sama hverfi

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Bryndís Snæbjörnsdóttir er formaður Þroskahjálpar.
Bryndís Snæbjörnsdóttir er formaður Þroskahjálpar. vísir/Egill

Formaður Þroskahjálpar gagnrýnir áform Garðabæjar um að reisa tvo búsetukjarna fyrir fólk með fötlun í sama hverfinu. Mikilvægt sé að dreifa íbúðum fyrir fólk með fötlun svo það hafi val um búsetu. Fyrir er einn búsetukjarni í grenndinni.

Fyrirhugað er að reisa tvo nýja búsetukjarna fyrir fólk með fötlun í Ásahverfinu í Garðabæ. Formaður Þroskahjálpar fagnar því að bærinn skuli beita sér í húsnæðismálum fólks með fötlun en er ósátt við skipulag og staðsetningu búsetukjarnanna.

„Það sem við erum í raun og veru ósátt við er að það eigi bara að búa til einhvers konar ríkisbyggingar þannig að það verði augljóst hvar fatlaða fólkið býr og að þau verði öll sett í sama hverfi,“ sagði Bryndís Snæbjörnsdóttir, formaður Þroskahjálpar.

Hún segir mikilvægt að dreifa íbúðum fyrir fólk með fötlun á sambærilegan hátt og byggð dreifist almennt.

„Við viljum sjá er meiri blöndun. Að fatlað fólk búi til jafns við aðra í hverfum bæjarfélagsins en fái auðvitað þjónustuna sem það þarf vegna fötlunar sinnar,“ sagði Bryndís.

Bryndís segir Sáttmála sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólk skýran. Fólk með fötlun skuli fá tækifæri til að velja sér búsetustað.

„Þar er mjög hart kveðið á um að afstofnanavæða, að það beri að stefna að því. Strangt til tekið er hægt að segja að svona búsetukjarni sé stofnun ekki síst þegar þetta eru orðnar svona margar íbúðir,“ sagði Bryndís.

Áætlað er að hver búsetukjarni rými sex til sjö íbúðir.

„Það er hægt að minka stofnanaáhrifin með því að hafa færri íbúðir og ég myndi mæla með fjórum, hámark fimm íbúðum í búsetukjarna til að koma í veg fyrir þennan stofnanabrag. Ef ég ætti að ráðleggja forsvarsmönnum Garðabæjar þá myndi ég ráðleggja þeim að hafa samband við þá sem eiga að búa í þessu húsnæði og fara í einhvers konar þarfagreiningu. Svo myndi ég ráðleggja þeim að hafa samband við okkur eða önnur samtök sem hafa gefið sig út fyrir að hafa sérþekkingu á þessum málum og fá ráðgjöf um hvernig best sé að gera þetta,“ sagði Bryndís.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×