Innlent

Tveir í einangrun eftir komuna til Seyðisfjarðar

Andri Eysteinsson skrifar
Tvö smit greindust í Norrænu.
Tvö smit greindust í Norrænu. Vísir/Jóhann K.

Um fjögur hundruð farþegar Norrænu sem komu til landsins í gær þurftu að fara í sýnatöku við komuna en 634 farþegar voru um borð í skipinu. Tveir farþeganna reyndust smitaðir af kórónuveirunni.

Einn farþeganna vissi af smitinu er hann fór um borð í skipið í Hirtshals í Danmörku og var hann því einangraður í klefa sínum alla leiðina til Íslands og hélt hann til síns heima í einangrun við komuna til Seyðisfjarðar. Rannsókn er í gangi hvort mögulega sé um gamalt smit að ræða.

Þá greindist einn farþegi með staðfest smit í kjölfar skimunar um borð í skipinu í gær. Vísbendingar eru um að smitið sé mögulega gamalt. Sá farþegi er nú í einangrun.

Vegna bilunar í höfn í Færeyjum tafðist för Norrænu til landsins en skammur tími gefst til þess að sinna skimunum hér á landi miðað við áætlun. Ríflega þriðjungur sýna var tekinn um borð af teymi á vegum Heilbrigðisstofnunar Austurlands sem var í skipinu.

Á hafnarbakkanum biðu starfsmenn HSA og Íslenskrar erfðagreiningar sem aðstoðuðu við sýnatöku. Gekk hún prýðilega og var lokið fjörutíu og fimm mínútum eftir komuna til landsins en Norræna var við höfn í klukkutíma og fjörutíu mínútur.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.