Innlent

Tveir í einangrun eftir komuna til Seyðisfjarðar

Andri Eysteinsson skrifar
Tvö smit greindust í Norrænu.
Tvö smit greindust í Norrænu. Vísir/Jóhann K.

Um fjögur hundruð farþegar Norrænu sem komu til landsins í gær þurftu að fara í sýnatöku við komuna en 634 farþegar voru um borð í skipinu. Tveir farþeganna reyndust smitaðir af kórónuveirunni.

Einn farþeganna vissi af smitinu er hann fór um borð í skipið í Hirtshals í Danmörku og var hann því einangraður í klefa sínum alla leiðina til Íslands og hélt hann til síns heima í einangrun við komuna til Seyðisfjarðar. Rannsókn er í gangi hvort mögulega sé um gamalt smit að ræða.

Þá greindist einn farþegi með staðfest smit í kjölfar skimunar um borð í skipinu í gær. Vísbendingar eru um að smitið sé mögulega gamalt. Sá farþegi er nú í einangrun.

Vegna bilunar í höfn í Færeyjum tafðist för Norrænu til landsins en skammur tími gefst til þess að sinna skimunum hér á landi miðað við áætlun. Ríflega þriðjungur sýna var tekinn um borð af teymi á vegum Heilbrigðisstofnunar Austurlands sem var í skipinu.

Á hafnarbakkanum biðu starfsmenn HSA og Íslenskrar erfðagreiningar sem aðstoðuðu við sýnatöku. Gekk hún prýðilega og var lokið fjörutíu og fimm mínútum eftir komuna til landsins en Norræna var við höfn í klukkutíma og fjörutíu mínútur.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.