Lífið

Betra að ráðast á læknana sem skrifa upp á of mikið af þessum lyfjum

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Rapparinn Emmsjé Gauti segir fáránlegt að horfa á fíkniefnaneytendur sem glæpamenn en ekki veikt fólk.
Rapparinn Emmsjé Gauti segir fáránlegt að horfa á fíkniefnaneytendur sem glæpamenn en ekki veikt fólk. Skjáskot/Youtube

Emmsjé Gauti, sem gefur út plötuna Bleikt Ský í dag, er í viðtali hjá Sölva Tryggvasyni í nýjasta hlaðvarpi Sölva. Í viðtalinu segist Gauti persónulega þekkja fólk sem hefur dáið úr ofneyslu. Hann ræðir einnig um glæpavæðingu fíkniefna, tónlistina, kvíðatímabilið sem hann gekk í gegnum, trúarbrögð, guð og skoðanakúgun.

Veikt fólk ekki glæpamenn

„Nú þekki ég sjálfur fólk sem hefur dáið úr ofneyslu læknadóps og ég hef sjálfur fundið það þegar ég fékk skrifað upp á Parkodín Forte í massavís eftir hálskirtlatöku hvað ópíóðar eru hættulegt dæmi,“ segir Gauti í viðtalinu við Sölva og bætir við:

„Ég held að það fyrsta sem þurfi að fara að gera í þessari umræðu er að ráðast á læknana sem eru að útskrifa allt of mikið af lyfseðilsskyldum lyfjum sem er síðan verið að selja, eins og Oxy, Parkódín Forte og Fentanýl sem er í umferð og er að drepa fólk.“

Hann segir fáránlegt að enn sé horft á fíkniefnaneytendur sem glæpamenn en ekki veikt fólk. Það sé löngu úrelt að eiga við hlutina með þessum hætti og ástæðan fyrir því að svo mikill greinarmunur sé gerður á áfengi og öðrum efnum sé fyrst og fremst vegna þess að áfengi sé samfélagslega viðurkennt og fólk sé háð því með einum eða öðrum hætti.

Gauti tekur það skýrt fram að hann sé alls ekki hrifinn af fíkniefnum, en er algjörlega sannfærður um að glæpavæðing efnanna sé löngu úrelt leið til þess að eiga við vandann.

„Ég vildi óska þess að það þyrfti enginn að nota fíkniefni… en ég held til dæmis að það sé augljóst að þú lagir ekki sprautufíkil með því að handtaka hann og færa hann í fangageymslu.“

 Platan Bleikt ský er væntanleg á streymisveitur á miðnætti en útgáfutónleikarnir fara fram þann 18. júlí.

Brotið má sjá í spilaranum hér fyrir neðan. Viðtal Sölva við Gauta er komið í heild sína á Youtube.

Klippa: Podcast með Sölva Tryggva - Emmsjé Gauti

Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×