Innlent

Sýnatakan kláruð þrátt fyrir skamman tíma: „Það verður bara að hafa það að skipið tefst“

Andri Eysteinsson skrifar
Norræna lagðist við bryggju fyrr í dag, nokkuð á eftir áætlun.
Norræna lagðist við bryggju fyrr í dag, nokkuð á eftir áætlun. Vísir/Jóhann K.

Norræna lagðist að bryggju á Seyðisfirði í dag með yfir fjögur hundruð farþega sem þurftu að gangast undir skimun fyrir kórónuveirunni. Skammur tími er til stefnu í hvert skipti sem ferjan leggst að landi og ekki bætti í skák að tafir urðu á ferðinni frá Færeyjum.

„Heilbrigðisstarfsmenn voru um borð og voru þeir að undirbúa sýnatökuna í morgun þegar ferjan nálgaðist land. Það voru sex aðilar um borð og svo bætist við frá Heilbrigðisstofnun Austurlands og svo fóru tíu starfsmenn Íslenskrar erfðagreiningar austur í morgun til þess að hjálpa við þessa sýnatöku þar sem að ferjan stoppar svo stutt,“ sagði Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn í samtali við Vísi.

Víðir segir að vitað hafi verið af um fjögur hundruð farþegum sem þyrftu að fara í sýnatöku. „Svo voru töluvert af Færeyingum um borð sem ekki þurfa að fara í sýnatöku. Þeir voru yfir tvö hundruð.“ Færeyingar þurfa ekki að fara í skimun þar sem að Færeyjar eru ekki skilgreindar sem hættusvæði vegna faraldursins.

Vegna seinkunar lagði Norræna að bryggju um ellefuleytið í dag og er það rúmum tveimur tímum á eftir áætlun. Víðir segir að bilun í Færeyjum hafi orðið til þess að ferð ferjunnar yfir hafið seinkaði.

„Sýnatakan verður náttúrulega bara kláruð eins og hún er sett upp. Það verður bara að hafa það að skipið tefst en við erum allavega búin að gera allt sem við getum til þess að vinna þetta innan þess glugga sem ferjan er að sigla,“ sagði Víðir og bætti við að þó það hafi ekki tekist að þessu sinni sé unnið að því að koma í veg fyrir að þetta komi fyrir í næstu skipti.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×