Innlent

Varað við skriðum á stóru svæði á Norðausturlandi

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Rauða svæðið táknar það svæði þar sem hætta er á jarðskriðum í kjölfar stórs skjálfta.
Rauða svæðið táknar það svæði þar sem hætta er á jarðskriðum í kjölfar stórs skjálfta. Mynd/Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra.

Almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra minnir á að óvissustig vegna jarðskjálfrahrinunnar á Norðausturlandi er enn í gildi. Rannsóknir bendi til að enn sé innistæða fyrir stórum skjálfta á svæðinu og er varað við skriðuföllum á norðanverðan Tröllaskaga og Flateyjarskaga en einnig á Melrakkasléttu.

Þetta kemur fram í færslu á Facebook-síðu Almannavarnadeildar þar sem myndin sem sjá má hér að ofan er birt en rauða svæðið táknar það svæði þar sem hætta er á áhrifum vegna skriðufalla eða flóðbylgna í kjölfar stórs jarðskjálfta.

Jarðskjálftahrina sem hófst fyrir norðan land þann 19. júní stendur enn yfir og hafa tæplega níu þúsund skjálftar mælst í henni en þetta er öflugasta hrinan á Tjörnesbrotabeltinu í ríflega 40 ár.

STUTT: Óvissustig Almannavarna á Norðausturlandi vegna jarðskjálftahrinunnar sem hófst 19. júni er enn í gildi. Á meðan...

Posted by Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra on Miðvikudagur, 1. júlí 2020

Virknin hefur færst aðeins austar eftir Húsavíkur-Flateyjar misgenginu þó jarðskjálftar þar séu flestir mjög litlir og finnist ekki í byggð en ekki er hægt að útiloka að þarna geti komið stærri skjálftar. Rannsóknir á misgenginu benda til að enn sé innistæða fyrir stærri skjálfta allt að stærð 7 á Húsavíkur-Flateyjar misgenginu og meðan að hrinan er í gangi eru auknar líkur á að stærri skjálftar mælist, að því er fram kemur í stöðufærslu Almannavarna.

„Ef að kæmi til slíks skjálfta er hugsanlegt að hann valdi grjóthruni og skriðum auk þess sem þekkt er að sumir stærri skjálftar valdi flóðbylgjum. Hættan á skriðuföllum er því ekki einungis bundin við norðanverðan Tröllaskaga og Flateyjarskaga eins og áður hefur verið greint frá heldur einnig austur á Melrakkasléttu.“

Mikilvægt er að fólk á svæðinu kynni sér leiðbeiningar Almannavarna um viðbrögð í jarðskjálftum og tryggi innanstokksmuni eins og hægt er hið fyrsta segir í færslu Almannavarna.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×