Innlent

Áfram refsað fyrir vörslu fíkniefna

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata, var fyrsti flutningsmaður frumvarpsins.
Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata, var fyrsti flutningsmaður frumvarpsins. Vísir/Vilhelm Gunnarsson

Frumvarp Pírata um afnám refsinga fyrir vörslu neysluskammta fíkniefna var fellt á síðasta þingfundi sumarsins, sem lauk á þriðja tímanum í nótt. Átján þingmenn í stjórnarandstöðu samþykktu frumvarpið en 28 þingmenn meirihlutans og Miðflokks voru því andsnúnir.

Níu stjórnarþingmenn greiddu ekki atkvæði um málið í nótt þrátt fyrir að hafa verið viðstaddir atkvæðagreiðsluna. Þeirra á meðal voru forsætisráðherra, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og dómsmálaráðherra. Sú síðastnefnda sagðist þó í nótt vera efnislega sammála frumvarpinu og ætla að vinna í afglæpavæðingarátt í ráðuneyti sínu.

Stjórnarþingmennirnir sem felldu frumvarpið töldu málefnið mikilvægt en frumvarp Pírata ófullnægjandi. Páll Magnússon, þingmaður Sjálfstæðisflokks, sagði með því að knýja fram atkvæðagreiðslu um „gallað“ frumvarp væri Pírötum meira umhugað um að vinna „áróðursstríðið“ um málið í „tveimur eða þremur fréttatímum heldur en að leiða málið farsællega til lykta í samræmi við eigin markmið.“

Kölluðu eftir stjórnarfrumvarpi

Ummælin Páls vöktu litla hrifningu og mátti heyra þingmenn Pírata kalla „hvar er ykkar frumvarp?“ Ætla má að þeir hafi þar vísað til stjórnarsáttmála Sjálfstæðisflokks, Framsóknar og Vinstri grænna þar sem segir að horfið skuli af braut „harðra refsinga fyrir neyslu fíkniefna en styrkja aðgerðir gegn fíkniefnasölum, innflutningi og framleiðslu fíkniefna.“

Ljóst er að frumvarp meirihlutans þess efnis mun ekki líta dagsins ljós á næstunni enda hefur þingi verið frestað. Næsti þingfundur verður 27. ágúst þegar rætt verður um efnahagsleg áhrif kórónuveirunnar, en setning næsta þings fer fram 1. október.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×