Innlent

Hátt í hundrað far­þegar ná­lægt því að sleppa skimun

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Frá skimunaraðstöðunni á Keflavíkurflugvelli.
Frá skimunaraðstöðunni á Keflavíkurflugvelli. Vísir/Einar

Mistök við opnun landgönguhliða á Keflavíkurflugvelli urðu til þess að farþegar flugvélar Wizz Air frá Katowice í Póllandi til Keflavíkur gengu fram hjá skimunarsvæði flugstöðvarinnar. Lögreglan áttaði sig á mistökunum og sá til þess að farþegarnir gengjust undir skimun áður en þeim var hleypt í gegn um flugstöðina.

Þetta kom fram í samtali Vísis við Sigurgeir Sigmundsson, yfirlögregluþjón flugstöðvardeildar lögreglunnar á Suðurnesjum. Hann segir mannleg mistök hjá stjórnstöð Isavia hafa valdið þessu. Búið sé að fara yfir málið og tryggja að ekkert þessu líkt komi fyrir aftur.

Vélin lenti klukkan 18:16, um rúmum hálftíma á undan áætlun. Sigurgeir segir að lendingartími vélarinnar hafi þó ekki haft með það að gera að farþegarnir hafi farið fram hjá skimunarsvæðinu. Eins segir hann að náðst hafi í alla farþega vélarinnar áður en þeir héldu leiðar sinnar, og þeir hafi allir verið skimaðir.

Niðurstöður skimunar á farþegunum ættu að liggja fyrir seint í kvöld eða í fyrramálið. Tölur um ný smit kórónuveirunnar hér á landi birtast klukkan 13 á hverjum degi, á vefsíðunni covid.is.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×