Innlent

10 ára harmoníku­snillingur á bænum Riddara­garði

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Víkingur 10 ára með harmoníkuna sína, sem hann er duglegur að æfa sig og læra á.
Víkingur 10 ára með harmoníkuna sína, sem hann er duglegur að æfa sig og læra á. Magnús Hlynur Hreiðarsson.

Þrátt fyrir Víkingur Árnason í Ásahreppi í Rangárvallasýslu sé ekki nema tíu ára gamall þá finnst honum ekkert eins gaman og að spila á harmonikkuna sína. Gæðastundirnar eru þó þegar afi hans, sem er 82 ára spilar með honum valsa og polka.

Það er gaman að koma í Riddaragarð í Ásahreppi og hitta Víking og fjölskylduna hans. Systir hans, sem heitir Thelma Lind æfir frjálsíþróttir og hefur gaman af því leika sér með köttinn Gretti á bænum. Áhugamál Víkings liggja hins vegar í tónlist og harmoníkuspili en hann er orðinn ansi góður að spila sé tekið tillit til þess að hann er ekki nema 10 ára.

En af hverju hefur hann svona mikinn áhuga á harmoníkuleik?

„Þegar ég var sjö ára þá fannst mér þetta svo skemmtilegt og líka núna, þá vildi ég bara prófa.“

Grétar Geirsson bóndi á Áshóli í Ásahreppi, afi Víkings er þekktur harmoníkuleikari í Rangárvallasýslu og víðar. Hann hefur hvatt Víking áfram og kennt honum líka á nikkuna. Afinn er stoltur af stráknum.

Víkingur og Grétar afi hans gera töluvert af því að spila saman og finnst það alltaf jafn skemmtilegt.Magnús Hlynur Hreiðarsson.

„Hann er þræl músíkalskur og notar bæði eyrað og nótur sitt á hvað. Ég vona að hann haldi áfram að læra og æfa sig, hann er kominn á gott skrið núna, farinn að hafa áhuga á þessu aftur,“ segir Grétar um leið og hann hvetur börn og unglinga til að læra á harmoníku enda sé hljóðfærið mjög skemmtilegt. Tíu börn voru t.d. að læra á hljóðfærið í Tónlistarskóla Rangæinga í vetur.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×