Fótbolti

Lewandowski kjörinn bestur í Þýskalandi

Sindri Sverrisson skrifar
Robert Lewandowski er einn af albestu leikmönnum heims í dag.
Robert Lewandowski er einn af albestu leikmönnum heims í dag. VÍSIR/GETTY

Robert Lewandowski hefur verið útnefndur leikmaður ársins í þýsku 1. deildinni í fótbolta en hann hefur átt magnað tímabil með meisturum Bayern München.

Lokaumferðin í þýsku deildinni er á morgun og er ljóst að Lewandowski verður markakóngur deildarinnar. Hann hefur skorað 33 mörk á leiktíðinni, fleiri en nokkur erlendur leikmaður hefur gert á einni leiktíð í deildinni, og er sjö mörkum á undan Timo Werner hjá RB Leipzig.

Lewandowski hóf tímabilið af krafti og var valinn leikmaður ágústmánaðar. Þessi 31 árs Pólverji afrekaði það meðal annars á tímabilinu að skora í 11 leikjum í röð, sem er met í þýsku deildinni, og með því að skora gegn Fortuna Düsseldorf í maí hefur hann skorað gegn öllum liðum sem nú eru í deildinni.

Bayern hefur þegar tryggt sér áttunda Þýskalandsmeistaratitil sinn í röð, sem er met, en liðið er tíu stigum á undan Dortmund fyrir lokaumferðina.

Verðlaun þýsku deildarinnar fyrir leikmann ársins eru ný af nálinni en valið er út frá atkvæðum stuðningsmanna og áliti sérfræðinga. Jordan Sancho, leikmaður Dortmund, varð í 2. sæti og Kai Havertz hjá Leverkusen í 3. sæti.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.