Innlent

Of hættu­legt og of mikill hiti til að senda inn reykka­fara

Atli Ísleifsson og Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifa
Jón Viðar Matthíasson slökkviliðsstjóri á höfuðborgarsvæðinu segir slökkvistarf hafa verið erfitt.
Jón Viðar Matthíasson slökkviliðsstjóri á höfuðborgarsvæðinu segir slökkvistarf hafa verið erfitt. Vísir/Vilhelm

Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins, segir enn óstaðfest hvar eldurinn hafi komið upp í húsinu við Bræðraborgarstíg sem brann í gær. „Það eru til góðar myndir af þessu frá fyrstu stundu þannig að það er sennilega verið að vinna með það.“

Hann segir að enn liggi ekkert fyrir um eldsupptök, en að rannsókn standi yfir. „[Lögregla] fékk vettvanginn afhentan klukkan hálf fjögur í nótt þannig að sú vinna er í gangi.“

Þrír eru látnir og tveir eru á gjörgæslu eftir eldsvoðann, en einn hefur verið útskrifaður af sjúkrahúsi. Kennslanefnd ríkislögreglustjóra hefur verið kölluð til vegna málsins.

Húsið var byggt árið 1906 og segir Jón Viðar að það hafi verið byggt upp samkvæmt þeim byggingarefnum sem voru ráðandi á þeim tíma.

Jón Viðar segir að sú staðreynd að vitað hafi verið um menn inni í húsinu hafi mótað allt starf slökkviliðs.

„Fyrir okkur var þetta mjög erfitt slökkvistarf. […] Við reynum fyrst í upphafi að fara inn með reykkafara til að reyna að bjarga. En í raun er tekin sú ákvörðun að það var ekki að skila árangri, það var of hættulegt, of mikill hiti. Þannig að það sem kom í kjölfarið litaðist af því að menn vissu af einstaklingum inni og var lögð áhersla á að reyna að ná til þeirra eins fljótt og hægt var. En það tók sinn tíma þar sem það var kominn eldur í innveggi og útveggi og við þurftum svo að fara í að rífa þakið af húsinu til að ná betri tökum á eldinum og komast að þeim látnu.“

Að neðan má sjá frétt um brunann úr Kvöldfréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi.


Tengdar fréttir

Þrír látnir eftir eldsvoðann í gær

Þrír eru látnir og tveir eru á gjörgæslu eftir að eldur kviknaði í íbúðarhúsi í Vesturbæ Reykjavíkur í gær. Einn hefur verið útskrifaður af sjúkrahúsi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×