Íslenski boltinn

Hallgrímur mögulega með slitið krossband

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Hallgrímur mun að öllum líkindum ekki spila meira með KA á þessu ári.
Hallgrímur mun að öllum líkindum ekki spila meira með KA á þessu ári. Vísir/Kaffið

Í gær mættust KA og Leiknir Reykjavík á Greifavellinum á Akureyri í 32-liða úrslitum Mjólkurbikarsins. KA vann leikinn örugglega 6-0 en Leiknismenn fengu tvö rauð spjöld á sömu mínútunni þegar hálftími var liðinn. Eftir það var þetta leikur kattarins að músinni.

KA menn eru þó ekki hoppandi kátir með sigurinn enda slasaðist Hallgrímur Jónasson þegar rúmar tuttugu mínútur voru liðnar af leiknum og óttast þessi sterki varnarmaður að krossband í hné sé slitið.

„Ég stóð í fótinn þegar hann lendir á mér og hnéið fór í yfirréttu. Hann rann á mig og straujaði mig mig svona ofarlega. Það eru allar líkur á því að krossbandið sé slitið en ég fæ það staðfest eftir að ég kemst í segulómun,“ sagði Hallgrímur í viðtali við Mbl.is.

Leikmaðurinn sem lenti á Hallgrími var Sólon Breki Leifsson. Hann fékk gult spjald fyrir brotið og svo annað fyrir samskonar brot tæpum tíu mínútum síðar. Þá rann hann einnig er hann ætlaði að pressa Kristijan Jajalo, markvörð KA.

Einkar klaufaleg brot hjá Sóloni Breka og svo virðist sem tímabilinu sé lokið hjá Hallgrími.

Hallgrímur Jónasson kom heim úr atvinnumennsku síðla árs 2017 og hefur leikið með KA síðan. Hefur hann glímt við meiðsli frá því hann kom heim en sumarið 2018 lék hann 14 deildarleiki og á síðasta tímabili náði hann aðeins 12 leikjum. Ef Hallgrímur hefur rétt fyrir sér með krossbandið er ljóst að leikirnir verða aðeins tveir á þessu tímabili.

Hinn 34 ára gamli Hallgrímur var atvinnumaður til fjölda ára. Alls hefur hann leikið 16 leiki með A-landsliði Íslands og gert í þeim þrjú mörk. Þar á meðal tvö í frægu 5-3 tapi Íslands í Portúgal árið 2011.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.