Innlent

Lilja höfðar mál vegna úr­skurðar um að hún hafi brotið jafn­réttis­lög

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.
Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra. Vísir/Vilhelm

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, hyggst höfða mál gegn konu sem kærunefnd jafnréttismála taldi að brotið hefði verið á þegar gengið var fram hjá henni við ráðningu ráðuneytisstjóra. Með ráðningunni var talið að Lilja hefði brotið jafnréttislög. Með málshöfðuninni ætlar ráðherra að freista þess að fá úrskurðinum hnekkt. RÚV greindi fyrst frá.

Samkvæmt upplýsingum frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu leitaði Lilja lögfræðiálita, þar sem bent var á „lagalega annmarka“ á úrskurðinum. Hann þyki bjóða upp á lagalega óvissu í tengslum við ferlið sem unnið er eftir við skipan embættismanna, og því til þess fallinn að valda réttaróvissu, að því er fram kemur í upplýsingum frá ráðuneytinu.

„Með hliðsjón af þeim vafa sem uppi er telur ráðherra brýnt að málið fái efnislega umfjöllun fyrir dómstólum og lagaóvissu verði eytt. Því hefur verið ákveðið að höfða mál til ógildingar á úrskurðinum.“

Í lok síðasta mánaðar úrskurðaði kærunefnd jafnréttismála að Lilja hefði gerst brotleg við jafnréttislög þegar hún réði Pál Magnússon í embætti ráðuneytisstjóra í ráðuneyti sínu. Hafdís Helga Ólafsdóttir, sem var á meðal umsækjenda, kærði ráðninguna til kærunefndar jafnréttismála. Hún var ekki á meðal þeirra fjögurra sem hæfisnefnd mat sem svo að væru hæfust í starfið.

Samkvæmt 5. grein laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, sem fjallar um kærunefnd jafnréttismála, eru úrskurðir nefndarinnar bindandi gagnvart málsaðilum. Hins vegar er málsaðilum heimilt að bera úrskurði nefndarinnar undir dómstóla. Ráðherra þarf því að höfða mál gegn kærandanum, í þessu tilfelli Hafdísi, til þess að fá úrskurðinn ógildan fyrir dómi.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×