Í dag var kynnt aðgerðaráætlun í loftslagsmálum þar sem gert er ráð fyrir að 45 milljörðum verði varið til aðgerða í loftslagsmálum næstu fimm árin. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingflokksformaður Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs sagði í ræðu sinni í eldhúsdagsumræðum á Alþingi að með aðgerðarpakkanum uppfylli Ísland ekki aðeins alþjóðlegar skuldbindingar heldur hyggist gera enn betur í loftslagsmálum.
„Það er mikil áskorun að vera ráðherra umhverfis og auðlinda á tímum þar sem augu heimsins beinast sem aldrei fyrr að málaflokknum. Þess þó heldur þegar Covid kom og hliðra þurfti mikilvægasta náttúruverndarmáli Íslands – Hálendisþjóðgerði – fram á haust,“ sagði Bjarkey.
Þá minntist hún þess að þann 17. júní síðastliðinn, Þjóðhátíðardag okkar Íslendinga, var Geysissvæðið friðlýst og í vikunni þar á undan Goðafoss í Skjálfandafljóti.
„Ég fór út í stjórnmál til að hafa áhrif á samfélagið okkar og til að gera það enn betra. Verkefnin eru ærin og sum viðvarandi,“ sagði Bjarkey.
„Náttúran heldur þó áfram að minna á sig og þessa dagana skelfur jörð í minni heimabyggð á Tröllaskaga. Náttúran okkar hér á Íslandi er stórbrotin, en getur jafnframt verið varasöm og mikilvægt er að við gleymum því aldrei að lykillinn að búsetu hérlendis er að búa í sátt og samlyndi við náttúruöflin.“
Þá sagði hún reynslu okkar Íslendinga af náttúruhamförum ef til vill lykilinn að því hve vel okkur hefur tekist að takast á við kórónuveiruna. „Við erum vön því að taka náttúruhamförum alvarlega og vinna saman sem ein heild þegar þær ríða yfir. Við þurfum enn að vera á varðbergi. Við þurfum enn að taka Covid-19 alvarlega og huga að okkar persónulegu sóttvörnum.“
Eldhúsdagsumræður á Alþingi eru enn í gangi og fylgjast má með þeim hér.