Fótbolti

Hendi guðs á 34 ára afmæli í dag

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Diego Maradona kemur Argentínu í 1-0 með því að slá boltann yfir Peter Shilton sem greip fyrir vikið í tómt.
Diego Maradona kemur Argentínu í 1-0 með því að slá boltann yfir Peter Shilton sem greip fyrir vikið í tómt. Getty/Bob Thomas

Englendingar gleyma ekki 22. júní 1986 svo auðveldlega, deginum þegar ólöglegt mark Diego Armando Maradona var dæmt gilt og átti stóran þátt í því að þeir voru sendir heim af HM.

Maradona átti síðan skömmu síðar eftir að bæta við einu flottasta marki sem hefur verið skorað í sögu HM.

England og Argentína mættust í átta liða úrslitum á HM í Mexíkó. England hafði unnið Paragvæ í sextán liða úrslitunum en Argentínumenn slógu út Úrúgvæ.

Það var markalaust í leiknum eftir fyrri hálfleikinn en eftir sex mínútna leik í þeim síðari varð atvik sem allir muna eftir sem á horfðu.

Diego Maradona kom Argentínu þá í 1-0 á 51. mínútu með því að skora með hendinni og eftir leikinn talaði hann um að Hendi guðs hefði skorað markið. Markið varð alltaf stórfrétt en þessi ummæli Maradona gerðu það bara að enn stærri frétt.

Fjórum mínútum síðar sólaði Maradona sig í gegnum alla ensku vörnina og kom Argentínu í 2-0. Gary Lineker minnkaði muninn í 2-1 en enska liðið náði ekki að jafna metin. Seinna mark Maradona hefur oft verið valið besta markið í sögu heimsmeistarakeppninnar.

Þessar fjórar mínútur hafa líka verið notaðar til að lýsa Diego Maradona enda sýndi hann þarna á sér tvær mjög ólíkar hliðar.

Diego Maradona skoraði síðan tvö mörk í 2-0 sigri á Belgíu í undanúrslitunum og lagði upp sigurmarkið í 3-2 sigri á Vestur-Þýskalandi í úrslitaleiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×