Innlent

Klukkan tifar í kjaradeilu hjúkrunarfræðinga og ríkisins

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Guðbjörg Pálsdóttir, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.
Guðbjörg Pálsdóttir, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga. Vísir/Erla Björg

Hlé var gert á sameiginlegum fundi samninganefnda á fjórða tímanum í gær en þá höfðu nefndirnar fundað saman frá því klukkan hálf tíu um morguninn. Boðað hefur verið til nýs fundar klukkan 14 í dag.

Guðbjörg Pálsdóttir, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga segir stöðuna mjög snúna. Viðræður strandi á launaliðnum. 

„Við komum saman klukkan 14. Klukkan tifar það er rétt og að öllu óbreyttu hefst verkfall klukkan átta í fyrramálið. Við vitum öll að verkfall er algjört neyðarúrræði og eitthvað sem allir tapa á. En við beitum því ef það er það sem þurfi. Það er engin spurning,“ sagði Guðbjörg.

Hjúkrunarfræðingar hafa verið samningslausir í fimmtán mánuði og að óbreyttu hefst verkfall hjúkrunarfræðinga í fyrramálið.

Ert þú bjartsýn á að þetta takist fyrir dagslok?

„Ég veit það ekki. Ef ég á að segja alveg eins og er. Við tökum daginn klukkutíma fyrir klukkutíma. Við erum vön því vinnuumhverfi, sinnandi sjúklingum þar sem ástandið er síbreytilegt. Við erum róleg yfir því og endurmetum stöðuna jafn óðum,“ sagði Guðbjörg Pálsdóttir, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

Undanþágunefnd Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga og ríkisins kemur saman seinnipart dags til að fara yfir undanþágubeiðnir. Beiðnir verða þó ekki afgreiddar fyrr en á morgun.

Verði af verkfalli mun almenn símaráðgjöf og netspjall heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu að öllum líkindum falla niður auk þess sem rask verði á ungbarnavernd, heilsuvernd aldraða og heimahjúkrun.

Á Landspítalanum verður einnig röskun á starfssemi, símatímar hjúkrunarfræðinga falla niður og skipulagðri þjónustu frestað verði af verkfalli.

„Það er mjög þungt. Það er mjög þungt hljóðið í hjúkrunarfræðingum og okkur finnst löngu kominn tími til að störf hjúkrunarfræðinga fái betri viðurkenningu í þessu þjóðfélagi en ríkið kannski ekki sammála okkur þar,“ sagði Guðbjörg.


Tengdar fréttir

Hjúkrunarfræðingar funda í Karphúsinu

Samningafundur Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga og ríkisins hófst á ný klukkan hálf tíu í morgun og stendur enn. Að óbreyttu hefst verkfall hjúkrunarfræðinga klukkan átta á mánudagsmorgun.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×