Fótbolti

Fáránleg úrslit í Rússlandi: Lið Björns í sóttkví en neytt til að spila

Sindri Sverrisson skrifar
Björn Bergmann Sigurðarson í gulum búningi Rostov.
Björn Bergmann Sigurðarson í gulum búningi Rostov. VÍSIR/GETTY

Lið Björns Bergmanns Sigurðarsonar, Rostov, var neytt til að spila í rússnesku úrvalsdeildinni í fótbolta þrátt fyrir að sex leikmenn þess greindust með kórónuveirusmit og að allt liðið hefði verið sent í einangrun.

Keppni í rússnesku deildinni er að hefjast að nýju eftir hlé vegna faraldursins og tapaði Rostov, sem er í 4. sæti deildarinnar, 10-1 í dag fyrir Sochi sem komst upp í 9. sæti. Rostov bað um að leiknum yrði frestað, enda allt liðið í 14 daga sóttkví, en Sochi hafnaði því.

Björn, sem á reyndar við meiðsli að stríða og er á Íslandi, og liðsfélagar hans gátu því ekkert gert til að koma í veg fyrir tap. Rostov varð einfaldlega að senda unglingalið sitt til keppni. „Það var ekki auðvelt að senda þessa ungu stráka að spila þennan leik. Við tókum þessa ákvörðun í gærkvöld. Ég held að þeir hafi allir verið hræddir. Sextán ára strákar eru börn,“ sagði Artashes Arutyunyants, forseti Rostov, við heimasíðu félagsins.

Forráðamenn Sochi eru sagðir hafa sterk ítök innan rússneska knattspyrnusambandsins, en liðið tók stórt skref í að halda sæti sínu í efstu deild með sigrinum.

Samkvæmt Russian Football News var meðalaldur byrjunarliðs Rostov 17,2 ár og er það met í rússnesku úrvalsdeildinni, eins og gefur að skilja. Guttarnir komust reyndar yfir í leiknum, á fyrstu mínútu, en staðan var orðin 4-1 í hálfleik.

Björn var að láni hjá APOEL á Kýpur fyrri hluta þessa árs en þeirri dvöl er lokið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×