Fótbolti

Einn leikur í stað tveggja í for­keppnum Evrópu­deildarinnar og Meistara­deildarinnar

Anton Ingi Leifsson skrifar
KR-ingar eru á leið í forkeppni Meistaradeildarinnar.
KR-ingar eru á leið í forkeppni Meistaradeildarinnar. Vísir/Bára

Það verða margar breytingar á keppnum á vegum UEFA í ár vegna kórónuveirufaraldursins og breytingar verða á keppnum þar sem íslensk lið taka þátt.

KR leikur í forkeppni Meistaradeildar Evrópu karla á meðan FH, Víkingur og Breiðablik leika í forkeppni Evrópudeildar karla. Valur tekur þátt í forkeppni Meistaradeildar Evrópu kvenna.

Forkeppni og undankeppni Meistaradeildar karla og Evrópudeildar fer fram með stökum útsláttarleikjum, í stað þess að leika heima og heiman. Dregið verður um hvort liðið fær heimaleik í hverri umferð.

Þegar komið verður fram í umspil um sæti í riðlakeppni Meistaradeildar fer fram með leikjum heima og heiman en umspil um sæti í riðlakeppni Evrópudeildar verður stakur leikur.

Forkeppni Meistaradeildar karla verður leikin 8. og 11. ágúst, fyrsta umferð undankeppni 18. og 19. ágúst, önnur umferð undankeppni 25. og 26. ágúst, þriðja umferð undankeppni 15. og 16. september og umspil um sæti í riðlakeppninni (heima og heiman) 22/23 og 29/30 september. Riðlakeppnin fer svo fram í október, nóvember og desember.

Forkeppni Evrópudeildarinnar verður leikin 20. ágúst, fyrsta umferð undankeppni 27. ágúst, önnur umferð undankeppni 17. september, þriðja umferð undankeppni 24. september og umspil um sæti í riðlakeppninni 1. október. Riðlakeppnin fer svo fram í október, nóvember og desember.

Forkeppni (riðlakeppni) Meistaradeildar kvenna verður leikin dagana 7.-13. október, 32-liða úrslit 11/12 og 18/19 nóvember. Aðrar umferðir verða leiknar vorið 2021 og úrslitaleikurinn verður í Gautaborg 16. maí. Dregið verður í forkeppnina fyrstu viku komandi septembermánaðar.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.