Innlent

Sprengi­vinnu vegna nýs Land­spítala senn lokið

Atli Ísleifsson skrifar
Til stendur að opna sjúkrahúsið árið 2026.
Til stendur að opna sjúkrahúsið árið 2026. Hringbrautarverkefnið

Síðasta táknræna, stóra sprengingin vegna framkvæmda við byggingu meðferðarkjarna nýs Landspítala við Hringbraut var gerð fyrr í dag. Til stendur að opna sjúkrahúsið árið 2026.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra var viðstödd sprenginguna en meðferðarkjarninn er stærsta byggingin í heildaruppbyggingu Nýs Landspítala við Hringbraut.

Enn á eftir að ráðast í fáeinar minniháttar sprengingar við frágang, en sprengingin í dag var gerð í norðausturhorni framtíðar bílakjallara.

Í tilkynningu er haft eftir Svandísi að þetta séu stór tímamót og mikill áfangi að sjá draum landsmanna um uppbyggingu Landspítala rætast.

Vopnaður heilbrigðisráðherra við Hringbraut.Hringbrautarverkefnið

„Framkvæmdir hér á svæðinu hafa gengið vel og færa okkur nær þvi markmiði að hér verði tekið í notkun nýtt þjóðarsjúkrahús árið 2026. Nýtt sjúkrahús mun breyta miklu til framtíðar allri heilbrigðisþjónustu, auka þjónustu við sjúklinga og stórbæta aðstöðu heilbrigðisstarfsfólks,“ sagði Svandís.

Lokað útboð

Einnig er haft eftir Gunnari Svavarssyni, framkvæmdastjóra NLSH ohf, að jarðvegsframkvæmdir við grunn hússins hafi gengið samkvæmt áætlun. ÍAV hefur verið aðalverktaki verksins.

„Verkefnið hefur ekki haft neina samgönguröskun í för með sér á svæðinu og um leið endurspeglar landfyllingarverkefnið gildi umhverfisþátta og þess metnaðar sem lagt er upp með. Þessi táknræna lokasprenging í grunninum segir okkur að nú sé næsta stóra verkefnið að steypa upp húsið og áætlanir NLSH eru að uppsteypan geti hafist von bráðar í samræmi við heimildir. Fimm verktakar munu fljótlega skila inn tilboðum í lokuðu útboði,“ segir í tilkynningunni.

Svandís og Gunnar.Hringbrautarverkefnið


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×