Innlent

Mæta aftur til samninga­fundar eftir verk­falls­boðun

Atli Ísleifsson skrifar
Guðbjörg Pálsdóttir, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.
Guðbjörg Pálsdóttir, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga. Vísir/Erla Björg

Samninganefndir Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga mæta til samningafundar í húsnæði ríkissáttasemjara klukkan 14 í dag. Fundurinn er sá fyrsti eftir að yfirgnæfandi meirihluti félagsmanna Fíh samþykktu að boða til verkfallsaðgerða.

Guðbjörg Pálsdóttir, formaður Fíh, segir að eftir að niðurstaða atkvæðagreiðslunnar lá fyrir á föstudaginn hafi ríkissáttasemjari boðað til fundarins. „Sem bæði við og formaður samninganefndar ríkisins erum algerlega tilbúin til að taka. Það stendur ekkert á okkur að halda áfram samtalinu.“

Alls greiddu 85,5 prósent félagsmanna Fíh atkvæði með verkfallsaðgerðunum, en 2.143 félagsmenn tóku þátt í atkvæðagreiðslunni eða 82,2 prósent.

Einhverra hluta vegna sitjum við hér enn

„Það er hálfur mánuður til stefnu þar til að verkfallsaðgerðirnar hefjast klukkan 8 að morgni 22. júní. Þetta er ótímabundið allsherjarverkfall hjá öllum þeim sem að vinna hjá stofnunum á vegum ríkisins. Þannig að við erum að tala um allar heilbrigðisstofnanir sem eru þarna undir – Sjúkrahúsið á Akureyri, Landspítala, Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og embætti landlæknis,“ segir Guðbjörg.

Hún segist þrátt fyrir allt vilja vera bjartsýn á að samningar náist áður en til verkfalls kemur. „Við erum náttúrulega búin að sitja í hvað, fimmtán mánuði, og einhverra hluta vegna sitjum við hér enn. Ég vil samt vera bjartsýn og þess vegna mætum við. Ég trúi því ekki að staðan eigi eftir að verða þannig að við þurfum að beita þessu síðasta úrræði okkar, að fara í verkfall. En ég er bjartsýn og við mætum við opinn huga,“ segir Guðbjörg.


Tengdar fréttir

Hjúkrunar­fræðingar sam­þykkja verk­falls­að­gerðir

Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga hefur boðar til verkfallsaðgerða hjúkrunarfræðinga sem starfa hjá ríkinu. Málið var lagt til atkvæðagreiðslu sem lauk nú á hádegi og tóku 82,2 prósent þeirra hjúkrunarfræðinga sem starfa á ofangreindum samningi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×