Fótbolti

Aron Elís skoraði og gaf stoð­sendingu | Jón Dagur lagði einnig upp mark

Anton Ingi Leifsson skrifar
Aron Elís og Jón Dagur lögðu báðir upp mark í dag.
Aron Elís og Jón Dagur lögðu báðir upp mark í dag. vísir/getty

Íslendingarnir gerðu margir hverjir góða hluti í lokaumferð dönsku úrvalsdeildarinnar sem fór fram í dag en deildinni verður nú skipt upp í þrjá hluta; úrslitakeppni og svo tvo fallbaráttu-riðla.

Aron Elís Þrándarson skoraði eitt og lagði upp annað er OB vann 3-1 sigur á Esbjerg. Hann lagði upp fyrsta markið á 23. mínútu og skoraði þriðja markið á 44. mínútu með laglegu skoti.

OB endar í 9. sæti deildarkeppninnar og eru því á leið í fallriðlanna en þeir eru afar langt frá fallinu. Vinni þeir hins vegar riðil sinn, gætu þeir komist í umspil um Evrópusæti. Aron spilaði allan leikinn.

Jón Dagur Þorsteinsson lagði upp fyrsta mark AGF er liðið vann 3-2 sigur á Álaborg en AGF endar í 3. sæti deildarkeppninnar. Jón Dagur spilaði fyrsta klukkutímann fyrir Árósar-liðið.

Mikael Anderson spilaði síðasta stundarfjórðunginn er topplið Midtjylland vann 1-0 sigur á Nordsjælland á útivelli og hélt níu stiga forskoti á FCK sem vann Randers 2-1 á heimavelli.

Hjörtur Hermannsson og félagar í Bröndby töpuðu 3-2 fyrir Horsens á útivelli. Bröndby endar í 4. sæti deildakeppninnar og fer því í úrslitakeppni sex efstu liðanna.

Eggert Gunnþór Jónsson spilaði í 80 mínútur er SönderjyskE gerði 2-2 jafntefli við Silkeborg. SönderjyskE er með 27 stig í 11. sætinu og á enn tölfræðilegan möguleika á því að falla úr deildinni er farið er inn í riðlana tvo.

Öll úrslit dagsins:

AaB - AGF 2-3

FCK - Randers 2-1

Hobro - Lyngby 1-2

Horsens - Bröndby 3-2

Nordsjælland - Midtjylland 0-1

Odense - Esbjerg 3-1

SönderjyskE - Silkeborg 2-2




Fleiri fréttir

Sjá meira


×