Fótbolti

Geta tekið við þúsund full­orðnum um helgina: „Góð bú­bót að fá þessa aura inn“

Anton Ingi Leifsson skrifar
Páll Kristjánsson tók við sem formaður KR á vormánuðum.
Páll Kristjánsson tók við sem formaður KR á vormánuðum. vísir/s2s

Íslenski boltinn fer formlega að rúlla um helgina. Mjólkurbikar karla fer af stað sem og Meistarakeppni KSÍ en þar mætast KR og Víkingur, Íslands- og bikarmeistararnir, á Meistaravöllum.

Páll Kristjánsson segir að KR-ingar hafi skipt KR-vellinum upp í fimm hólf svo hægt sé að taka á móti þúsund fullorðnum áhorfendum um helgina en þeir bíði spenntir eftir nýrri meldingum ríkisstjórnarinnar hvenær fleiri mega mæta á völlinn.

„Við erum búnir að vinna heimavinnuna. Miðað við þessar 200 áhorfendur þá sjáum við fyrir okkur að við getum tekið allt að þúsund fullorðnum áhorfendum. Við eigum að geta tekið á móti þúsund og svo bíðum við spenntir eftir næsta útspili ríkisstjórnarinnar og hvort að það megi bæta í. Við getum tekið á móti miklu fleiri áhorfendum en þúsund,“ sagði Páll sem býst við því að miðarnir rjúki út.

„Mætingin á æfingaleiki er sterk vísbending um að það verði slegist um þessa miða. Það verður fyrstur kemur, fyrstur fær á þessum fyrsta stórleik. Það verði eins margir og það mega að vera.“

Hann segir að peningarnir sem eru nú að fara koma í kassann séu mikilvægir félögunum.

„Þegar félögin hafa sagt um að þau hafi orðið fyrir tekjumissi þá er það kannski fyrst og fremst að við vissum ekki hversu mörgum áhorfendum við máttum taka á móti. Við gátum ekki farið af stað með neina ársmiðasölu sem setti allt í uppnám. Þetta er mjög góð búbót að fá þessa aura inn.“

Klippa: Sportpakkinn - Páll Kristjánsson



Fleiri fréttir

Sjá meira


×