Innlent

Hug­mynd um báta­strætó „of góð til að prófa hana ekki“

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri.
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri. Vísir/vilhelm

Borgarstjóri kynnti í dag aðgerðaráætlunina „Græna planið“ sem snýr að því að allar aðgerðir borgarinnar verði umhverfisvænar. Markmið er að öll hverfi borgarinnar verði sjálfbær auk þess sem nýstárlegar hugmyndir á borð við bátastrætó eru á lofti.

Græna planið er víðtæk áætlun um fjárfestingar, framkvæmdir og atvinnusköpun í Reykjavík. Gert er ráð fyrir að borgin taki forystu í aðgerðum til að bregðast við efnahagslegum samdrætti og vaxandi atvinnuleysi eftir heimsfaraldur.

Aðgerðir skulu vera í samræmi við framtíðarsýn um kolefnishlutlaust borgarsamfélag. Í þessu felst að allar aðgerðir borgarinnar verði grænar.

„En líka áætlun um nýsköpun og fjölbreytt atvinnulíf. Síðast en ekki síst áætlun um það að allar ákvarðanir okkar séu jafnframt ákvarðanir sem miða að markmiðum í loftslagsmálum. Markmiðum um góða borg með hámarks lífsgæðum,“ sagði Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri.

Næsti áratugur verði því áratugur aðgerða í loftslagsmálum hjá Reykjavíkurborg. Markmiðið er öll hverfi borgarinnar verði sjálfbær. Hluti af grænum samgönguinnviðum er meðal annars tilraunaverkefni með bátastrætó.

„Þetta er hugmynd sem var sett fram þegar sýnin um fríríki frumkvöðla í Gufunesi kom fram. Okkur finnst spennandi að tengja Gufunesið, bryggjuhverfið, kannski Viðey en alla vega miðborgina með bátastrætó. Við erum ekki búin að útfæra hana en þetta er eiginlega of góð hugmynd til að prófa hana ekki,“ sagði Dagur.

Græna planið var kynnt á blaðamannafundi klukkan 13 í dag. Elisabet Inga

Gert er ráð fyrir að átak í uppbyggingu húsnæðis haldi áfram auk þess sem grænum svæðum verði fjölgað.

Á næstu vikum mun borgarstjóri efna til samráðs með fyrirtækjum í borginni, aðilum vinnumarkaðarins og eiga viðræður við ríkisstjórnina um græna atvinnusköpum.


Tengdar fréttir

Græna planið

Með Græna planinu erum við að gera loftslagsmálin að leiðarstefi við alla ákvarðanatöku.

Græn svæði fegruð og tengd með grænu neti í Græna planinu

Reykjavíkurborg hyggst taka forystu í aðgerðum til að bregðast við efnahagssamdrætti og vaxandi atvinnuleysi eftir heimsfaraldur og mun tryggja að aðgerðirnar verði í samræmi við framtíðarsýn um kolefnishlutlaust borgarsamfélag og metnaðarfull loftslagsmarkmið borgarinnar.

Allar aðgerðir borgarinnar verði grænar

Aðgerðaráætlun um grænt plan verður tekin fyrir á borgarstjórnarfundi í dag. Í því felst að allar aðgerðir borgarinnar verða grænar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×