Fótbolti

Elísabet segir hópinn aldrei hafa litið betur út

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Elísabet Gunnarsdóttir er spennt fyrir komandi tímabili.
Elísabet Gunnarsdóttir er spennt fyrir komandi tímabili. Expressen/PETTER ARVIDSON

Elísabet Gunnarsdóttir, þjálfari Kristianstad í sænsku úrvalsdeildinni, er að fara inn í sitt tólfta tímabil með félaginu. Síðasta leiktíð flokkast sem vonbrigði en liðið endaði í sjöunda sæti deildarinnar. Stefnt er að því að gera betur í ár og segir Elísabet að hópurinn hafi ekki litið betur út síðan hún tók við stjórnartaumum félagsins.

Eftir vonbrigðin frá því á síðustu leiktíð hefur Elísabet styrkt hópinn til muna og ræddi hún við sænska miðilinn Expressen um komandi tímabil um helgina.

„Ég er mjög spennt og það verður spennandi að takast á við þétt leikjaplan,“ segir Elísabet en deildin verður leikin töluvert hraðar en vani er eftir að hafa verið frestað vegna kórónafaraldursins.

„Ég er mjög ánægð með leikmannahóp liðsins og tel ég að hann hafi aldrei litið betur út. Alls erum við með 21 leikmann sem geta barist um sæti í byrjunarliðinu og verður erfitt að velja byrjunarlið í fyrstu leikjum mótsins.“

Elísabet telur lið sitt vel undirbúið en sænska úrvalsdeildin hefst helgina 27. og 28. júní.

„Við snérum aftur til æfinga í mars en við reiknuðum með að tímabilið færi af stað í júní eða júlí. Við vorum ekki sáttar með hverngi síðasta tímabil fór og og markmiðið í ár er að gera betur og berjast á toppi deildarinnar,“ sagði Elísabet að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×