Innlent

Minnst tuttugu látnir í árás á naut­gripa­markað

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Vígamenn hafa iðulega beint spjótum sínum að skólum í Búrkína Fasó.
Vígamenn hafa iðulega beint spjótum sínum að skólum í Búrkína Fasó. Getty/Xavier Rossi

Minnst tuttugu hafa verið drepnir í austurhluta Búrkína Fasó í árás sem gerð var á nautgripamarkað í bænum Kompienga. Árásarmennirnir sem voru vopnaðir byssum keyrðu inn á markaðinn á mótorhjólum og hófu að skjóta fólk á færi. Ekki er vitað hver stendur baki árásinni.

Mikil aukning hefur verið í árásum öfgatrúarmanna og átökum milli vígahópa í Búrkína Fasó síðustu mánuði. Hundruð þúsunda hafa neyðst til að yfirgefa heimili sín vegna ofbeldisins. Á föstudag létust minnst 15 í árás á bílalest verslunarmanna í norðurhluta landsins nærri Malí. Talið er að árásarmennirnir séu hluti af íslömskum öfgahópi.

Yfirvöld kenna „hryðjuverkamönnum“ um árásina, en það orð er yfirleitt notað í Búrkína Fasó þegar talað er um al-Qaeda og hryðjuverkahópinn sem kennir sig við Íslamska ríkið. Viðvera hryðjuverkahópanna tveggja hefur aukist verulega í landinu síðustu ár.

Þrátt fyrir að yfirvöld hafi reglulega haldið því fram að hryðjuverkahóparnir hafi verið brotnir á bak aftur hefur óstöðugleiki í norður- og austurhluta landsins aukist gríðarlega. Vígamenn hafa iðulega beint spjótum sínum að skólum og hafa 300 þúsund börn í landinu neyðst til að hætta skólagöngu vegna þess.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×