Innlent

Minnst tuttugu látnir í árás á naut­gripa­markað

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Vígamenn hafa iðulega beint spjótum sínum að skólum í Búrkína Fasó.
Vígamenn hafa iðulega beint spjótum sínum að skólum í Búrkína Fasó. Getty/Xavier Rossi

Minnst tuttugu hafa verið drepnir í austurhluta Búrkína Fasó í árás sem gerð var á nautgripamarkað í bænum Kompienga. Árásarmennirnir sem voru vopnaðir byssum keyrðu inn á markaðinn á mótorhjólum og hófu að skjóta fólk á færi. Ekki er vitað hver stendur baki árásinni.

Mikil aukning hefur verið í árásum öfgatrúarmanna og átökum milli vígahópa í Búrkína Fasó síðustu mánuði. Hundruð þúsunda hafa neyðst til að yfirgefa heimili sín vegna ofbeldisins. Á föstudag létust minnst 15 í árás á bílalest verslunarmanna í norðurhluta landsins nærri Malí. Talið er að árásarmennirnir séu hluti af íslömskum öfgahópi.

Yfirvöld kenna „hryðjuverkamönnum“ um árásina, en það orð er yfirleitt notað í Búrkína Fasó þegar talað er um al-Qaeda og hryðjuverkahópinn sem kennir sig við Íslamska ríkið. Viðvera hryðjuverkahópanna tveggja hefur aukist verulega í landinu síðustu ár.

Þrátt fyrir að yfirvöld hafi reglulega haldið því fram að hryðjuverkahóparnir hafi verið brotnir á bak aftur hefur óstöðugleiki í norður- og austurhluta landsins aukist gríðarlega. Vígamenn hafa iðulega beint spjótum sínum að skólum og hafa 300 þúsund börn í landinu neyðst til að hætta skólagöngu vegna þess.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.