Innlent

Landgræðslustjóri vill banna lausagöngu búfjár á Íslandi

Kristján Már Unnarsson skrifar
Árni Bragason landgræðslustjóri: „Þetta er ekkert rosalega stórt skref.“
Árni Bragason landgræðslustjóri: „Þetta er ekkert rosalega stórt skref.“ Stöð 2/Sigurjón Ólason.

Landgræðslustjóri vill banna lausagöngu búfjár á Íslandi. Hann bendir á að ríkið verji hálfum milljarði króna á hverju ári í girðingar til að verjast sauðfé og að þetta gæti einnig auðveldað bændum að smala. Þetta kom fram í fréttum Stöðvar 2.

Sauðburður er langt kominn í sveitum landsins og senn kemur að því að bændur sleppi fé sínu lausu í bithaga sumarsins, sem oftast er vel gróið land en stundum afréttir sem landgræðslustjóri telur að þoli illa beit.

„Það er nóg af grasi á Íslandi. Það er nóg af grasi fyrir allt þetta sauðfé sem við erum með. Við erum ekki endilega að beita á réttum stöðum,“ segir Árni Bragason landgræðslustjóri.

Sauðfé Árnesinga rekið niður Þjórsárdal að hausti eftir sumarbeit á hálendi Íslands. Þarna er safnið milli Gaukshöfða og Bringu, sem sést fjær.Stöð 2/Baldur Hrafnkell Jónsson.

Sjá fjárrekstur við Gaukshöfða: Fjalldrottning á stað 100-króna seðilsins

Hann setur raunar spurningarmerki við það að búfé gangi frjálst um landið.

„Lausaganga búfjár var bönnuð á Norðurlöndunum fyrir nærri 150 árum síðan.“

Lausaganga búfjár sé á kostnað skattgreiðenda.

„Um það bil 500 milljónir á ári af fé ríkisins í að girða. Það er bæði það sem Landgræðslan er að gera. Það eru sauðfjárveikivarnir, Vegagerðin, Skógræktin,“ segir landgræðslustjóri.

En vill hann lausagöngubann á Íslandi?

„Já, ég vil það. Og það yrði ekkert rosalega mikil breyting vegna þess að mörg af þessum svæðum, þar sem verið er að beita í dag, eru þegar afgirt.

Við getum líka þá létt á og auðveldað mönnum að smala. Og við getum þá verið markvissari um það hvar við viljum beita.

Þetta er ekkert rosalega stórt skref. Sveitarfélögin hafa heimild til þess að banna lausagöngu, eins og gert var til dæmis á Reykjanesinu.“

Í landnámi Ingólfs gangi fé í beitarhólfum.

„Það er mjög víða sem hægt væri að gera þetta alveg nákvæmlega eins annarsstaðar á landinu,“ segir Árni Bragason landgræðslustjóri.

Hér má sjá frétt Stöðvar 2:


Tengdar fréttir

Segir mat á sjálfbærni beitilands byggt á veikum faglegum grunni

Viðmið sem núna eru notuð til að meta sjálfbæra nýtingu lands til beitar geta ekki talist sterkur faglegur grunnur fyrir það mat, segir Oddný Steina Valsdóttir, varaformaður Bændasamtaka Íslands og sauðfjárbóndi í Butru í Fljótshlíð.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.