Innlent

Sjáum ekki fyrr en í haust hvernig staðan verður

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Unnur Sverrisdóttir, forstjóri VInnumálastofnunnar.
Unnur Sverrisdóttir, forstjóri VInnumálastofnunnar. Stöð 2

Fjörutíu og tvö þúsund manns fá greiddar út bætur frá Vinnumálastofnun um mánaðamótin. Forstjóri stofnunarinnar segir sautján fyrirtæki hafa tilkynnt um hópuppsagnir í maí en yfir eitt þúsund manns hafa misst vinnuna í þeim.

Vinnumálastofnun gerir ráð fyrir að atvinnuleysi sé nokkuð minna í maí en apríl. Í maí verði það 14,8% en í lok apríl var það 17,8%. Þá er útlit fyrir að það dragi frekar úr atvinnuleysi í júní þar sem færri fyrirtæki hyggjast nýta sér hlutastarfaleið stjórnvalda þá.

„Það mun draga verulega úr atvinnuleysisprósentunni. Þannig ég býst við því að hún verði svona samtals í kringum 11% í júní. Samkomubanninu er náttúrulega nánast aflétt núna. Þannig að mjög mikið af fólki er komið aftur í sína vinnu,“ segir Unnur Sverrisdóttir forstjóri Vinnumálastofnunar.

Vinnumálastofnun bárust nokkrar hópuppsagnir í maí. „Það hafa borist hópuppsagnir núna frá 17 fyrirtækjum og það eru eitt þúsund tuttugu og sex einstaklingar sem að hafa fengið uppsagnarbréf.“

Unnur á von á að fólki á atvinnuleysisskrá fjölgi í ágúst. „Þá munu náttúrulega uppsagnirnar koma til framkvæmdar þannig. Þá er uppsagnarfrestinum lokið hjá þeim sem misstu vinnuna 1. maí og eru með þriggja mánaða uppsagnarfrest. Við sjáum þetta ekki fyrr en í haust hvernig staðan verður.“

Unnur segir að um fjörutíu og tvö þúsund manns fá greiddar atvinnuleysisbætur fyrir maí en tíma taki að greiða út bæturnar. „Það er orðin alveg átta vikna frestur frá því þú sækir um þar til þú getur búist við greiðslu á meðan að staðan er eins og hún er núna,“ segir Unnur.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×