Innlent

Njótum nú góðs af góðum humlu­stofni sem fór í vetrar­dvala eftir blíðuna síðasta sumar

Atli Ísleifsson skrifar
Erling Ólafsson skordýrafræðingur ræddi við Bítismenn í morgun.
Erling Ólafsson skordýrafræðingur ræddi við Bítismenn í morgun. Náttúrufræðistofnun/Getty

„Það var mjög góð afkoma hjá þeim í fyrra haust og fór góður stofn í vetrardvala og við erum að njóta góðs af því núna.“

Þetta segir Erling Ólafsson skordýrafræðingur um humlustofninn nú en hann ræddi íslenska skordýrasumarið við þá Gulla og Heimi í Bítinu í morgun. „Það er mikill fjöldi. Menn eru að tala um þetta hvað það er mikið af humludrottningum búið að vera undanfarið – þessar „stóru hlussur“ eins og menn segja alltaf.“

Erling segir að humlumergðina nú skýrast af hinu góða veðri sem var síðasta sumar. Sumarið 2018 hafi þær hins vegar ekki náð sér á strik. „Þegar rigndi á Suðurlandi, stytti ekki upp fyrr en í ágúst einhvern tímann. Þá áttu humlurnar í erfiðleikum og það var léleg framleiðsla á nýjum drottningum þá um haustið. En svo vöknuðu þær upp í fyrra vor, þessar drottningar sem þó urðu til og þær fengu heldur betur meðbyr.“

Erling segist ekki vilja spá fyrir um hvernig skordýrasumarið verði. „Það er nú þannig með þessi skordýr að þau spila eftir nótum og nóturnar eru veðráttan, aðstæður hverju sinni og svo sveiflast þetta bara upp og niður eftir því. Það er ekkert sem heitir eðlilegt ástand. Eðlilegt ástand er bara viðbrögðin við ástandið hverju sinni. Við þekkjum Ísland. Það er aldrei eins.“

Hann bendir á að nú sé lok maí og að við vitum ekki hvernig veðrið verður eftir viku, tvær eða þrjár. „Þetta heldur áfram að spila eftir nótunum sem gefast hverju sinni. Nóturnar geta stundum verið dálítið djass – ekki fyrir hvern sem er að skilja.“

Hægt er að hlusta á viðtalið við Erling í spilaranum en þar ræðir hann einnig söngtifur sem hafa verið að vakna til lífsins í Bandaríkjunum.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.