Innlent

Einn hefur sent næstum tvö hundruð í sóttkví

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar

Þurft hefur að setja allt að tvö hundruð manns í sóttkví eftir að einstaklingur greindist með kórónuveiruna hér á landi. Ríflega sautján þúsund Íslendingar hafa nú lokið sóttkví.

Smitrakningarteymi almannavarna hefur nú verið starfandi í hátt í tvo mánuði. Teymið hefur haft samband við þá sem greinast með kórónuveiruna og lagt allt kapp á að rekja ferðir þeirra.

„Mér finnst það ganga furðuvel að rekja. Það gengur mikið betur núna þegar fólk er miklu meira vart um sig heldur en það var í upphafi. Svo getur líka appið núna, nýja appið það hjálpar okkur,“ segir Gyða Baldursdóttir hjúkrunarfræðingur.

Eftir að búið er að hafa samband við þann sem greindist með veiruna þarf að finna út hverjir af þeim sem hann hefur umgengist þurfa að fara í sóttkví en misjafnt er hversu margir það eru. „Þetta eru svona kannski fimm til fimmtán en svo geta komið alveg upp í fjörutíu fimmtíu og svo höfum við verið með tilfelli þar sem voru tæplega tvö hundruð manns,“ segir Ævar Pálmi Pálmason yfirmaður smitrakningarteymis almannavarna.

Lögð er áhersla á að rekja hvort fólk hafi smitast af veirunni innanlands eða í útlöndum. Í öllum nema átta tilfellum hefur tekist að finna það út. Hins vegar er oft óvíst nákvæmlega hver smitaði hvern. Margir þeirra sem greinast með veiruna hafa verið í sóttkví þegar þeir greindust. „Við höfum verið með í kringum sko milli fimmtíu og sextíu prósent fólk sem smitast í sóttkví og það hægir klárlega á dreifingunni,“ segir Ævar Pálmi.

„Það helsta sem hefur komið mér á óvart er þessi samstaða í þjóðinni og hvað fólk tekur þessu vel þegar maður hringir í það og segir því að það sé smitað eða segir því að það þurfi að fara í sóttkví,“ segir Gyða.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.