Innlent

Kjör­stöðum í Reykja­vík fjölgar um fjóra

Atli Ísleifsson skrifar
Nýir kjörstaðir eru í Breiðholtsskóla, Dalskóla, Vesturbæjarskóla, og í Borgarbókasafninu í Kringlunni.
Nýir kjörstaðir eru í Breiðholtsskóla, Dalskóla, Vesturbæjarskóla, og í Borgarbókasafninu í Kringlunni. Reykjavíkurborg

Borgarráð Reykjavíkurborgar hefur samþykkt að fjölga kjörstöðum í borginni um fjóra fyrir forsetakosningarnar sem líklega munu fara fram 27. júní næstkomandi. Verður þar að öllum líkindum kosið milli Guðna Th. Jóhannessonar forseta og Guðmundar Franklíns Jónssonar, en yfirkjörstjórn fer nú yfir meðmælalista frambjóðenda.

Í tilkynningu á vef Reykjavíkurborgar segir að nýir kjörstaðir séu í Breiðholtsskóla, Dalskóla, Vesturbæjarskóla og í Borgarbókasafninu í Kringlunni.

Þar segir að Breiðholtsskóli muni þjóna íbúum Bakka og Stekkja og afmarkast kjörhverfið af Breiðholtsbraut til suðurs, Höfðabakka og Arnarbakka til austurs, Reykjanesbraut til vesturs og Elliðaá til norðurs. Kjósendur sem nú fara í Breiðholtsskóla fóru áður í íþróttamiðstöðina í Austurbergi.

Reykjavíkurborg

„Dalskóli þjónar íbúa í Úlfarsárdal og við Reynisvatnsás. Það eru íbúar norðar við ánna og við Ásinn auk Haukdælabrautar, Gissurargötu, Döllugötu og Ísleifsgötu eða allir sem búa norðan við Reynisvatnsveg. Kjósendur voru áður í Ingunnarskóla.

Vesturbæjarskóli mun þjóna íbúum gamla Vesturbæjarins. Svæðið afmarkast af Hringbraut til suðurs og Hofsvallagötu og Ægisgötu til austurs. Kjósendur voru áður í Ráðhúsi.

Fjórði og síðasti kjörstaðurinn sem bætist við er Borgarbókasafnið í Kringlunni. Þessi kjörstaður afmarkast af Kringlumýrarbraut til austurs, Miklubraut til norðurs og Háaleitisbraut og Fossvogsvegi til austurs. Þetta eru allar götur sem enda á –leiti, auk hverfis sunnan Bústaðavegar: Skógarvegur, Sléttuvegur og Lautarvegur. Kjósendur fóru áður í Hlíðaskóla.

Aðrir kjörstaðir verða þeir sömu og síðast,“ segir í tilkynningunni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×