Fótbolti

Segir að fótboltakonur ræði aldrei barneignir í klefanum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðbjörg Gunnarsdóttir í marki íslenska landsliðsins á síðasta Evrópumóti sem fór fram í Hollandi 2017.
Guðbjörg Gunnarsdóttir í marki íslenska landsliðsins á síðasta Evrópumóti sem fór fram í Hollandi 2017. Getty/Catherine Ivill

Sif Atladóttir og Guðbjörg Gunnarsdóttir hafa ekki verið að spila með liðum sínum, Kristianstad og Djurgården. Sif Atladóttir er ólétt af sínu öðru barni og Guðbjörg eignaðist tvíbura í janúar síðastliðnum. Guðbjörg er þó farin að æfa aftur.

Sif Atladóttir er komin í stjórn leikmannasamtakanna í Svíþjóð þar sem hún ætlar meðal annars að berjast fyrir réttindum þungaðra knattspyrnukvenna. Sif fór í viðtal við Expressen vegna þessa en nýja tvíburamamman, íslenski landsliðsmarkvörðurinn Guðbjörg Gunnarsdóttir, var lika tekin í viðtal.

Óttaðist það að fá ekki tækifæri aftur

Guðbjörg Gunnarsdóttir ræddi við blaðamann Fotboll Sthlm um erfiðleika sína tengdum barnsburðinum og því að byrja að æfa aftur á nýjan leik.

„Ég óttast það smá að ég fengi ekki tækifærið aftur og að klúbburinn minn fjárfesti í öðrum leikmanni. Ég skil það líka. Tvíburarnir eru í fyrsta sæti hjá mér núna og það eru mikilvægari hlutir heldur en fótboltinn,“ sagði Guðbjörg Gunnarsdóttir við sænsku fótboltavefsíðuna Fotboll Sthlm.

Guðbjörg reyndi í þrjú ár að verða ófrísk en þorði ekki að segja félaginu sínu, Djurgården, frá því. Á síðasta ári tókst Guðbjörgu að verða ófrísk en hún er orðin 35 ára gömul. Hún er nú móðir tvíburanna Williams og Oliviu.

„Það gengur allt vel og foreldrarnir eru í skýjunum með nýju fjölskyldumeðlimina,“ skrifaði Guðbjörg á Instagram síðu sína. Það var samt ekki allt dans á rósum og Guðbjörg hefur nú opnað sig um um vandamálin sem afreksíþróttakonur lenda í þegar þær vilja verða foreldrar.

Guðbjörg hefur fengið aðstoð frá sjúkraþjálfara Djurgården en það eru engar leiðbeiningar til. Hún er nú byrjuð að æfa að nýju með liði sínu.

Ræða ekki barneignir í búningsklefanum

Guðbjörg segir að sænsku knattspyrnukonurnar ræði ekki barneignir í búningsklefanum og að margar knattspyrnukonur bíði með það að eignast börn, þar til eftir ferilinn, af ótta um það að missa starfið sitt.

„Þegar þú verður ófrísk sem afreksíþróttakona þá er það eins og þú meiðist og félagið nær í einhvern annan í staðinn fyrir þig. Þú getur ekki spilað og enginn hefur áhuga á þér,“ sagði Guðbjörg.

„Ég held það sé miklu betra líkamlega fyrir þig að eignast barn fyrr á ævinni en þú þorir því ekki. Þú vilt eiga eins langan feril og þú getur. Flestar í Damallsvenskan bíða því þar til að ferill þeirra er á enda,“ sagði Guðbjörg.

Guðbjörg ætlaði sér að ná landsleiknum á móti Svíþjóð í undankeppni EM sem átti að fara fram í haust. Kórónuveirufaraldurinn hefur breytt leikjadagskránni og hefur létt á pressunni á Guðbjörgu að koma til baka.

„Núna þegar ég er komin með tvö börn þá er erfitt að plana hlutina. Þú veist ekki hvernig tímabilið lítur út og þá er erfiðara að setja sér markmið. Þangað til að framhaldið skýrist betur þá ætla ég að halda áfram að mæta á æfingar og reyna að undirbúa mig eins vel og ég get,“ sagði Guðbjörg.

Ekki vinsælt hér í Svíþjóð að koma með börnin á æfingar

Nú þarf hún að redda barnapíu á meðan hún og Mia Jalkerud fara á æfingar hjá Djurgården. Þær njóta hins vegar góðs að því að fjölskylda kærustunnar býr við hliðina á þeim og þau hafa hjálpað þeim mikið.

„Ég veit það að á Íslandi er fólk opið fyrir því að mæta með börnin á æfingar og vera með þau í búningsklefanum. Ég held að það yrði ekki vinsælt hér í Svíþjóð,“ sagði Guðbjörg.

En sér hún framfarir í þessum málum?

„Ég veit það ekki. Það eru svo fáar í deildinni sem eru ófrískar og ég held að félögin sjái þetta ekki sem vandamál,“ sagði Guðbjörg en það má lesa allt viðtalið við hana hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×