Fótbolti

KSÍ gerir sex ára samning við PUMA og kynnir nýtt lands­liðs­merki í lok júní

Anton Ingi Leifsson skrifar
Gylfi Sigurðsson og félagar hafa leikið sinn síðasta búning í Errea.
Gylfi Sigurðsson og félagar hafa leikið sinn síðasta búning í Errea. getty

KSÍ hefur gengið frá sex ára samningi við íþróttavöruframleiðandann Puma en KSÍ tilkynnti þetta á samfélagsmiðlum sínum í morgun. Þetta hafði legið í loftinu í einhvern tíma en núverandi samningur við Errea var að renna út.

Nýr samningur við PUMA tekur gildi þann 1. júlí en PUMA tekur við af Errea eins og áður seigr. Errea hafði þjónað landsliðum Íslands í knattspyrnu í tæp tuttugu ár eða frá árinu 2001.

KSÍ kynnti fyrr á árinu nýtt merki sambandsins og í frétt á vef KSÍ í morgun segir frá því að nýtt landsliðsmerki verði kynnt í lok næsta mánaðar. Það merki mun vera á landsliðsbúningnum.

„Ég vil byrja á að nota tækifærið og þakka Errea fyrir langt og farsælt samstarf, KSÍ og Errea hafa upplifað margt saman í gegnum árin. Nú er komið að nýjum kafla í búningasögunni og næstu skref á okkar vegferð tökum við með PUMA,“ sagði Guðni Bergsson, formaður KSÍ.

„Við erum afar spennt fyrir samstarfinu við PUMA, sem er án vafa eitt fremsta íþróttavörumerkið í heiminum í dag, og hlökkum mjög til þess að sjá fyrsta PUMA búning landsliða Íslands kynntan um miðjan júlí. Ekki má gleyma því að við ætlum að kynna nýtt myndmerki landsliðanna okkar í lok júní, þannig að nýji PUMA búningurinn verður með nýja landsliðsmerkinu.“

Björn Gulden forstjóri PUMA tók í svipaðan streng.

„Íslensku landsliðin hafa náð ótrúlegum árangri í fótboltanum undanfarin ár. Þrátt fyrir að vera fámenn þjóð hafa Íslendingar sýnt að það er hægt að ná langt með hæfileikum, rétta viðhorfinu og ekki síður einstakri liðsheild. Ég vænti mikils af samstarfinu við KSÍ og hlakka til þeirra verkefna sem eru framundan.“Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.