Innlent

Starfs­maður á frí­stunda­heimili leystur frá störfum vegna gruns um kyn­ferðis­brot gegn nem­endum

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Héraðsdómur Reykjaness dæmdi manninn í fimm daga gæsluvarðhald.
Héraðsdómur Reykjaness dæmdi manninn í fimm daga gæsluvarðhald. Vísir/Vilhelm

Starfsmaður á frístundaheimili í Hafnarfirði er grunaður um að hafa brotið kynferðislega gegn tveimur nemendum í 1. bekk í síðustu viku. Hann hefur verið leystur frá störfum á meðan rannsókn stendur yfir.

Á þriðjudag í síðustu viku barst lögreglu tilkynning frá barnaspítala Hringsins um hugsanlegt kynferðisbrot mannsins gagnvart barni. Við rannsókn lögreglu kom í ljós að um tvö börn væri að ræða og herma heimildir fréttastofu að þau séu á aldrinum 6-7 ára.

Maðurinn er á þrítugsaldri og starfar í Hraunseli, frístundaheimili fyrir börn í Hraunvallaskóla á aldrinum 6-9 ára.

Í gæsluvarðhaldsúrskurði Héraðsdóms Reykjaness kemur fram að annað barnið hafi lýst því hvernig maðurinn hafi fengið þau til að koma með sér á salerni og sýnt þeim kynfæri sín. Hafi hann sagt aðeins stráka með þess lags kynfæri sem gætu orðið mjög hörð. Barnið segist hafa snert kynfærin og kysst. Þau hafi ekki mátt segja frá því þá yrði maðurinn reiður.

Héraðsdómur Reykjaness féllst á fimm daga gæsluvarðhald yfir manninum. Landsréttur felldi hins vegar úrskurðinn úr gildi á föstudaginn og taldi að lögregla hefði ekki sýnt fram á að rannsóknarhagsmunir krefðust þess að hann sætti gæsluvarðhaldi áfram.

Í samtali við fréttastofu segir Unnsteinn Elvarsson, verjandi mannsins, að hann neiti alfarið sök og hafi verið mjög samstarfsfús. Hann hafi afhent lögreglu bæði tölvur sínar og síma.

Samkvæmt heimildum fréttastofu var maðurinn á fyrsta starfsári sínu á frístundaheimilinu.

Í yfirlýsingu frá Hafnarfjarðarbæ til fréttastofu segir að í síðustu viku hafi komið upp mál í Hraunvallaskóla sem snertir starfsmann skólans og er til rannsóknar hjá lögreglu. Þar sem málið sé á rannsóknarstigi sé ekki hægt að veita neinar upplýsingar að svo stöddu. Málið hafi strax farið í viðeigandi farveg og ferli innan skólans og hjá skólayfirvöldum í Hafnarfirði og að unnið sé samkvæmt fyrir fram skilgreindu verklagi í samstarfi við lögregluyfirvöld. Málið sé litið mjög alvarlegum augum og hefur viðkomandi starfsmaður verið leystur frá störfum á meðan rannsókn stendur yfir.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.