Fótbolti

Muller jafnaði met Kevin De Bruyne

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Magnaður leikmaður.
Magnaður leikmaður. Vísir/Getty

Þýski sóknarmaðurinn Thomas Muller lagði upp eitt mark og skoraði annað í 5-2 sigri Bayern Munchen á Eintracht Frankfurt í þýsku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag.

Muller lagði upp fyrsta mark leiksins fyrir Leon Goretzka en þetta var sautjánda stoðsending kappans á leiktíðinni.

Þar með hefur hann jafnað met Kevin De Bruyne yfir flestar stoðsendingar á einni leiktíð í þýsku Bundesligunni en belgíski miðjumaðurinn, sem leikur nú fyrir Englandsmeistara Manchester City, lagði upp sautján mörk í búningi Wolfsburg leiktíðina 2014/2015.

Það verður að teljast ansi líklegt að Muller takist að skáka De Bruyne þar sem 7 umferðir eru eftir af deildarkeppninni. 

Muller er þó ekki einn um að eiga möguleika á að eigna sér stoðsendingametið því enska ungstirnið Jadon Sancho hefur lagt upp sextán mörk hjá Borussia Dortmund á leiktíðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×