Innlent

Hægt verði að greiða með allt að 15 gjafabréfum

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Íslendingar eru hvattir til að ferðast innanlands í sumar. Gjafabréf frá stjórnvöldum á að ýta undir ferðalög hérlendis.
Íslendingar eru hvattir til að ferðast innanlands í sumar. Gjafabréf frá stjórnvöldum á að ýta undir ferðalög hérlendis. Vísir/vilhelm

Gjafabréfið sem hvetja á Íslendinga til að ferðast innanlands í sumar er farið að taka á sig mynd, ef marka má tilkynningu frá stjórnvöldum. Þar segir að frumvarp um gjafabréfið hafi verið kynnt á fundi ríkisstjórnar í morgun og að það feli m.a. í sér að einstaklingar megi nýta sér allt að 15 gjafabréf í einu.

Stjórnvöld kalla 5000 krónu gjafabréfið „ferðagjöf,“ en það var kynnt í fyrsta aðgerðapakka ríkisstjórnarinnar vegna kórónuveirufaraldursins. Síðan þá hefur það verið í útfærslu, til að mynda hvernig því verður komið til Íslendinga. Unnið er að gerða smáforrits „sem einfaldar greiðslu með ferðagjöfinni“ að sögn hins opinbera, en í samtali við fréttastofu sagði verkefnastjóri hjá Ferðamálastofu að smáforritið yrði ekki skilyrði. Fólk sem ekki á snjallsíma muni geta nálgast það með öðrum hætti.

Skattfrjálst og framseljanlegt

Vonir standa til að ferðagjöfin verði aðgengileg í júníbyrjun en framkvæmd og útfærsla gjafabréfsins verður kynnt nánar á kynningarfundi næstkomandi þriðjudag, 26. maí, klukkan 9:00. 

Í frumvarpinu sem kynnt var ríkisstjórn í morgun segir víst að gjafabréfið verði upp á 5000 krónur og verði gefið út til einstaklinga sem fæddir eru árið 2002 eða fyrr og eru með íslenska kennitölu. Samkvæmt frumvarpinu verður heimilt að gefa eigin ferðagjöf öðrum einstaklingi en hver einstaklingur má aðeins greiða með að hámarki 15 ferðagjöfum. Þá segja stjórnvöld að í frumvarpinu sé ákvæði sem undanþiggur ferðagjöfina skattskyldu.

Nánari upplýsingar um ferðamennskugjafabréfið má nálgast á vef stjórnarráðsins, þar má t.a.m. lesa um hvernig þetta snýr að ferðaþjónustufyrirtækjum.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.