Innlent

Guðmundur Franklín skilar inn framboði sínu til forseta

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Guðmundur Franklín Jónsson í ráðuneytinu í dag.
Guðmundur Franklín Jónsson í ráðuneytinu í dag. Vísir/Egill

Guðmundur Franklín Jónsson athafnamaður mætti í dómsmálaráðuneytið nú fyrir skemmstu til að skila inn framboði sínu til forseta Íslands. Framboðsfrestur rennur út á miðnætti en fyrr í dag skilaði Guðni Th. Jóhannesson, forseti, framboði sínu til ráðuneytisins.

Guðmundur Franklín hefur áður boðið sig fram, bæði til forseta og til Alþingis. Hann var formaður stjórnmálaflokksins Hægri-Grænna sem bauð fram í þingkosningum 2013, hann reyndist hins vegar ekki kjörgengur sökum búsetu erlendis.

Þá var Guðmundur einnig á meðal frambjóðenda í forsetakosningunum 2016 en dró hann framboð sitt til baka í apríl 2016 og lýsti yfir stuðningi við þáverandi forseta Íslands, Ólaf Ragnar Grímsson, sem dró svo reyndar sjálfur framboð sitt til baka.

Forsetakosningarnar fara fram laugardaginn 27. júní. Samkvæmt auglýsingu á vef stjórnarráðsins um framboð og kjör forseta Íslands skal framboðum til forsetakjörs skilað til dómsmálaráðuneytisins, ásamt samþykki forsetaefnis, nægilegri tölu meðmælenda og vottorðum yfirkjörstjórna um að þeir séu kosningabærir, eigi síðar en fimm vikum fyrir kjördag.

Skal forsetaefni hafa meðmæli minnst 1.500 kosningabærra manna en mest 3.000 og skiptast þau á ákveðinn hátt eftir landsfjórðungum sem nánar er útlistað í auglýsingu stjórnarráðsins.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.