Innlent

Mál fyrr­verandi starfs­manns SÁÁ endaði með þriggja milljóna króna sekt

Eiður Þór Árnason skrifar
Við ákvörðun sektarinnar var horft til þess að um væri að ræða samtök sem vinna að almannaheillum fyrir sjálfsaflafé.
Við ákvörðun sektarinnar var horft til þess að um væri að ræða samtök sem vinna að almannaheillum fyrir sjálfsaflafé. Vísir/Sigurjón

Persónuvernd hefur sektað SÁÁ um þrjár milljónir króna vegna öryggisbrests. Sektin varðar sjúkragögn sem reyndust óvænt vera í vörslu fyrrverandi starfsmanns SÁÁ. Deilt hefur verið um það hvort að hann hafi fengið þau afhent fyrir mistök eða tekið þau ófrjálsri hendi.

Umrædd gögn eru talin mjög viðkvæm og er meðal annars um að ræða dagbækur af AA-fundum, sjúkraskrár og innritunarbækur á meðferðarstöðvar frá árinu 1997-2006.

Málið litið mjög alvarlegum augum

Fram kom í umfjöllun um málið í ágúst síðastliðnum að embætti landlæknis og Persónuvernd hafi litið málið mjög alvarlegum augum. Gögnin voru að endingu afhent embætti landlæknis.

Í úrskurði Persónuverndar kemur fram að stofnunin telji að afhending sjúkraskrárgagnanna „væri afleiðing af skorti á tæknilegum og skipulagslegum ráðstöfunum af hálfu S.Á.Á. til að tryggja öryggi persónuupplýsinga.“

Sjá einnig: Viðkvæmu gögnin komin á borð landlæknis og lögreglu gert viðvart

Hjalti Þór Björnsson, fyrrverandi dagskrárstjóra SÁÁ, var sagt upp störfum árið 2017 eftir þrjátíu ára starf. Hjalti komst að því síðasta sumar að hann hefði í vörslu sinni pappakassa með trúnaðargögnum um sjúklinga félagsins.

Í samtali við fréttastofu í ágúst síðastliðnum sagðist hann hafa greint Persónuvernd frá málinu en þáverandi stjórn SÁÁ tilkynnti málið sömuleiðis til Persónuverndar. Var lögreglu einnig gert viðvart.

Ósammála um það hvernig hann komst yfir gögnin

Þá hafði deila staðið á milli Hjalta og Arnþórs Jónssonar, formanns stjórnar SÁÁ, þar sem hinn síðarnefndi sakaði Hjalta um að hafa tekið gögnin ófrjálsri hendi við starfslokin. Hjalti hefur ætíð neitað því og sagt að honum hafi borist gögnin fyrir mistök með öðru dóti í kjölfar uppsagnarinnar.

Niðurstaða Persónuverndar er sú að Hjalti hafi fengið umrædd gögn með öðrum persónulegum gögnum sem hann fékk afhent árið eftir að hann hætti störfum hjá SÁÁ.

Við ákvörðun sektarinnar leit Persónuvernd til þess að um væri að ræða samtök sem „vinna að almannaheillum, starfa ekki í fjárhagslegum tilgangi og leggja sjálfsaflafé til heilbrigðisþjónustu sem er opin almenningi.“

Einnig var litið til þess að mikil umbótavinna hafi verið unnin innan félagsins, sem hófst áður en upp komst um öryggisbrestinn, til að uppfylla kröfur persónuverndarlöggjafar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×