Innlent

Fjöldi mála þokast áfram á Alþingi

Heimir Már Pétursson skrifar

Alþingi lauk annarri umræðu um fimm frumvörp og þriðju umræðu um eitt frumvarp í dag auk síðari umræðu um þrjár þingsályktunartillögur. Atkvæðagreiðslur fóru fram síðdegis með skipulagðri göngu þingmanna í gegnum þingsalinn til að gæta sóttvarna eins og gert hefur verið í atkvæðagreiðslum undanfarnar vikur. Meðal frumvarpa sem greidd voru atkvæði um að lokinni annarri umræðu var frumvarp heilbrigðisráðherra um neyslurými.

Guðjón S. Brjánsson þingmaður segir mikilvægt að líta ekki á neytendur ólöglegra vímuefna sem glæpamenn.Vísir/ Vilhelm

Þingmenn nokkurra flokka lýstu stuðningi sínum við frumvarp heilbrigðisráðherra um neyslurými í atkvæðagreiðslu að lokinni annarri umræðu í dag. Guðjón S. Brjánsson þingmaður Samfylkingarinnar sagði frumvarpið marka tímamót.

„Hér er eitt lítið skref stigið í átt til afglæpavæðingar. Að horft sé til þess að um heilbrigðismál sé að ræða en ekki afbrotamál þótt hugsanlega sé um ólögleg vímuefni að ræða,“ sagði Guðjón.

Halla Signý Kristjánsdóttir þingmaður Framsóknarflokksins tók í svipaðan streng.

„Við erum að taka hér utanum mjög viðkvæman hóp og veikan hóp. Og ég segi já fyrir hönd þess hóps og líka fyrir hönd aðstandenda,“ sagði Halla Signý.

Halldóra Mogensen vill að gert verði refsilaust að hafa á sér neysluskammta af öllum vímuefnum.Vísir/Vilhelm

Halldóra Mogensen þingmaður Pírata hefur verið hvað ötulust þingmanna að þrýsta á hugafarsbreytingu meðal þingmanna í málefnum neytenda ólöglegra vímuefna. Hún er fyrsti flutningsmaður frumvarps sem gengur lengra en frumvarp heilbrigðisráðherra sem hún styður þó eins og flestir þingmenn.

„Mér sýnist að þetta ætli fram að ganga alla vega eftir aðra umræðu. Sem er mjög gott. Og ég kannski bara hvet ráðherra til áframhaldandi hughrekkis þegar kemur að því að afglæpavæða neysluskammta vímuefna almennt.,“ sagði Halldóra við atkvæðagreiðsluna í dag.


Tengdar fréttir

Ferðamenn og fíkniefni í Víglínunni

Á meðan stjórnvöld og þing eru á kafi í kófi kórónuveirunnar gægðust þau út úr fíkniefnakófinuþegar Alþingi veitti frumvarpi heilbrigðisráðherra um neyslurými brautargengi. Ferðamála- og nýsköpunarráðherra ræðir stöðu ferðaþjónustunnar og Halldóra Mogensen stöðuna í fíkniefnastríðinu í Víglínunni í dag.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.