Innlent

Tilkynning um spor á Skaga líklega ekki eftir hvítabjörn

Sylvía Hall skrifar
Lögreglan fór og kannaði spor sem tilkynnt var um á laugardag. Á sunnudag var svo leitað á snjósleðum en ekkert benti til þess að hvítabjörn hafi verið á svæðinu.
Lögreglan fór og kannaði spor sem tilkynnt var um á laugardag. Á sunnudag var svo leitað á snjósleðum en ekkert benti til þess að hvítabjörn hafi verið á svæðinu. Vísir/Getty

Töluverð umræða um mögulegan hvítabjörn á vestanverðum Skaga nærri Skagaströnd hefur sprottið upp undanfarna daga. Lögreglunni á Norðurlandi vestra hefur ekki borist tilkynning í kvöld en á laugardagskvöld var tilkynnt um möguleg spor eftir hvítabjörn. Eftir leit á svæðinu fannst ekkert sem benti til þess að hvítabjörn eða annað bjarndýr hafi verið á ferli.

Sjá einnig: Saga hvítabjarna hér á landi óblíð

„Lögreglan fór og skoðaði þetta og það var ljóst að þessi spor voru nokkurra daga gömul, örugglega frá því á þriðjudaginn í síðustu viku. Þau voru mjög ógreinileg, það var ekki nokkur leið að sjá hvað þetta var – hvort þetta væru spor eftir björn eða eitthvað annað dýr,“ segir Stefán Vagn Stefánsson yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Norðurlandi vestra í samtali við Vísi.

Á sunnudag var svo farið á snjósleðum upp á Skagaheiði til þess að kanna aðstæður nánar. Þar hafi ekkert bent til þess að bjarndýr væri á svæðinu.

„Það er nú þannig að við fáum alltaf reglulega tilkynningar á Norðurlandi vestra um það að það hafi sést slóðir eða grunur um að hvítabirnir séu að ganga á land, í langflestum tilfellum er það eitthvað sem á ekki stoð í raunveruleikanum sem betur fer. Það virðist vera að þetta sé slíkt mál,“ segir Stefán að lokum.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×