Innlent

Fjöru­tíu daga heim­sóknar­bann hefur verið mörgum þung­bært

Sylvía Hall skrifar
Pétur Magnússon, forstjóri Hrafnistu.
Pétur Magnússon, forstjóri Hrafnistu. Vísir

Pétur Magnússon, forstjóri Hrafnistu, segir það hafa verið nauðsynlegt að setja á heimsóknarbann í ljósi þess ástands sem er í samfélaginu vegna kórónuveirufaraldursins sem veldur Covid-19 sjúkdómnum. Það hafi þó ekki verið auðveld ákvörðun.

„Við tókum þá ákvörðun 6. mars síðastliðinn að loka fyrir heimsóknir til íbúanna okkar, sem var í rauninni mjög þungbær ákvörðun en algjörlega nauðsynleg í ljósi þessa ástands sem nú ríkir. Við sjáum það núna að það var nauðsynlegt,“ segir Pétur í samtali við fréttastofu. Heimsóknarbannið hefur nú staðið yfir í fjörutíu daga.

Sjá einnig: Ströng skilyrði fyrir heim­sóknum á hjúkrunar­heimili eftir 4. maí

Hann segir tilslakanirnar hafa verið kynntar lauslega en hugmyndin sé að kynna þær betur í næstu viku og þær muni taka gildi þann 4. maí næstkomandi. Tilslakanirnar verði í mjög hægum og rólegum skrefum en hann vonar þó að þær muni létta fólki lífið.

„Grunnurinn er þannig að það verður aldrei nema einn sem mun geta heimsótt í einu, að uppfylltum ákveðnum reglum og vinnureglum sem verða því tengdar. Þetta í rauninni er í vinnslu núna en mun létta mikið á fólki að geta boðið upp á eitthvað, því 4. maí verða hátt í sextíu dagar síðan þetta heimsóknarbann var sett,“ segir Pétur og bætir við að það hafi verið erfitt að banna heimsóknir ættingja og vina.

„Það hefur náttúrulega verið mjög mörgum þungbært, þó nánast allir hafi sýnt því mikinn skilning. Fyrir það ber að þakka.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×