Sjóræningjar skutu á norska olíuflutningaskipið Stolt Apal í Adenflóa, suður af Jemen, fyrr í dag.
Þetta staðfestir talsmaður skipaflutningafélagsins Stolt-Nielsen í samtali við Verdens gang.
„Tveir smærri bátar sigldu á miklum hraða í átt að skipinu með sex vopnaða sjóræningja um borð. Eftir að verðirnir um borð í flutningaskipinu höfðu skotið nokkrum viðvörunarskotum hófu sjóræningjarnir að skjóta á skipið,“ segir upplýsingafulltrúinn Ellie Davison.
Árásin átti sér stað um 75 sjómílum undan ströndum Jemen síðdegis í dag. Sjóræningjarnir hörfuðu þegar verðirnir héldu áfram að svara skotum sjóræningjanna.
Enginn særðist um borð í Stolt Apal, en smávægilegar skemmdir urðu á olíuflutningaskipinu vegna skota sjóræningjanna.
Stolt Apal siglir undir enskum fána.