Innlent

Ströng skil­yrði fyrir heim­sóknum á hjúkrunar­heimili eftir 4. maí

Sylvía Hall skrifar
Pétur Magnússon, forstjóri Hrafnistu, segir mikinn létti að heimsóknir verði leyfðar á ný.
Pétur Magnússon, forstjóri Hrafnistu, segir mikinn létti að heimsóknir verði leyfðar á ný. Vísir/Getty

Aðeins einn aðstandandi getur komið í heimsókn í einu á hjúkrunarheimili frá og með 4. maí. Fyrsta skref í afléttingu samkomubanns gildir frá og með þeim degi og eru heimsóknir á hjúkrunarheimili eitt af því sem verður leyft á ný, en heimsóknarbann til viðkvæmustu hópanna var með fyrstu takmörkunum sem settar voru á.

Sjá einnig: Þessum takmörkunum verður aflétt 4. maí

Frá þessu er greint á vef RÚV en þar segir að þetta sé á meðal tillagna vinnuhóps stjórnvalda og hjúkrunarheimila. Tillögur hópsins verða kynntar nánar í næstu viku en hann er skipaður fulltrúum Almannavarna, Embættis landlæknis, heilbrigðisráðuneytis og hjúkrunarheimila. Hópurinn hefur fundað reglulega síðustu vikur.

Pétur Magnússon, forstjóri Hrafnistu og formaður samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu, er í vinnuhópnum og segir hann tilslakanirnar taka gildi strax 4. maí. Enn eigi eftir að útfæra reglurnar nákvæmlega, en líkt og áður sagði mun aðeins einn geta komið í heimsókn í einu.

Hann segir ánægjulegt og mikinn létti að leyfa heimsóknir á ný, enda hafi heimsóknarbannið staðið yfir í tæplega sextíu daga. Þó verði að fara varlega í þeim efnum.


Tengdar fréttir

Fær ekki að hitta eiginkonu sína til sextíu ára

„Enginn getur komið í staðinn fyrir ástvin“, segir maður sem hefur ekki fengið að hitta eiginkonu sína í nærri hálfan mánuð vegna heimsóknarbanns á hjúkrunarheimilum. Þau hjónin hafa verið saman í sextíu ár og segir hann aðskilnaðinn síðustu vikur hafa tekið verulega á.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×