Innlent

Óformlegir fundir í kjaraviðræðum Icelandair og FFÍ

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Flugvélar Icelandair við Leifsstöð.
Flugvélar Icelandair við Leifsstöð. Vísir/Vilhelm

Samninganefndir Flugfreyjufélags Íslands og Icelandair funda í dag á óformlegum vinnufundum. Eins og stendur hefur formlegur fundur í kjaradeilu FFÍ og flugfélagsins ekki verið boðaður. Þetta staðfesti Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari í svari við fyrirspurn fréttastofu í dag.

Síðasti fundur FFÍ og Icelandair fór fram síðastliðinn miðvikudag. Engin niðurstaða komst í mál deiluaðila og ekki var boðað til nýs fundar í kjaradeilunni. Sama dag sagði Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, að hann teldi að lengra yrði ekki komist í samningaviðræðum við Flugfreyjufélagið.

Degi síðar kvað þó við nýjan tón og sagðist Bogi vongóður um að fulltrúar FFÍ og Icelandair gætu sest að samningaborðinu á nýjan leik, þrátt fyrir að ekki hafi verið boðað til nýs fundar milli aðila.

Fjárfestar geri kröfu um kjarasamninga

Næsta föstudag fer fram hluthafafundur Icelandair. Þar kemur í ljós hvort hluthafar samþykki að ráðast í hlutafjárútboð, sem ætlað er að afla flugfélaginu allt að 29 milljörðum í nýtt hlutafé.

Bogi hefur sagt að það sé krafa fjárfesta að Icelandair hafi náð samningum við flugstéttir, til að mynda Flugfreyjufélagið og Félag íslenskra atvinnuflugmanna.

Aðfaranótt föstudags náðust samningar í kjaraviðræðum Félags íslenskra atvinnuflugmanna og Icelandair. Samningurinn gildir til loka september árið 2025. Jón Þór Þorvaldsson, formaður FíA, hefur sagt að með samningnum taki félagsmenn á sig kjaraskerðingu til þess að koma til móts við það ástand sem nú er uppi í fluggeiranum. Hann segist vongóður um að samningurinn verði samþykktur af félagsmönnum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×