Innlent

Segir það skjóta skökku við að senda milljarða úr landi til að halda úti spila­kössum

Kristín Ólafsdóttir og Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifa
Mikil andstæða við spilakassa mælist í samfélaginu.
Mikil andstæða við spilakassa mælist í samfélaginu. Vísir/Baldur

Formaður samtaka áhugafólks um spilafíkn gagnrýnir að á árunum 2015-2018 hafi Íslandsspil og Happdrætti Háskólans greitt erlendum fyrirtækjum tæpa tvo milljarða til að halda úti starfsemi spilakassa.

Í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær fjölluðum við um að eindreginn stuðningur sé við lokun spilakassa samkvæmt nýrri könnun og mikill meirihluti andvígur því að starfsemi í almannaþágu sé fjármögnuð með þeim. Slysavarnafélagið Landsbjörg, SÁÁ og Rauði Krossinn eru eigendur Íslandsspils sem er einn tveggja rekstraraðila sem reka spilakassa hér á landi.

Formaður Slysavarnarfélagsins Landsbjargar sagði í samtali við Reykjavík síðdegis í gær að spilakassarnir væru mikilvægt fjáröflunarleið fyrir félagið en það sé tilbúið til að ræða aðrar mögulegar leiðir til að fjármagna rekstur þess. Jafnframt sagði hann að spilamennskan væri að færast ansi mikið yfir á netið og að á hverju ári fari um fjórir milljarðar króna úr landi í gegnum spilamennsku á netinu. Slíkt verði ekki leyst með lokun á spilakössum.

Alma Hafsteins, formaður Samtaka áhugafólks um spilafíkn, gagnrýnir ummæli formanns Landsbjargar og segir þau skjóta skökku við í ljósi þess hve mikið fjármagn fer úr landi tengt rekstri spilakassa.

„Þessi fyrirtæki, Íslandsspil og Happdrætti Háskólans, til dæmis á árunum 2015 til 2018, þá greiddu þeir í ýmist kaup á spilakössum eða leigu á spilakössum til erlendra fyrirtækja tæpa tvo milljarða sem fóru hér úr landi í erlendum gjaldeyri. Þetta er tæpur hálfur milljarður á ári. Jafnframt greiddu þeir til söluturna, áningarstaða, veitingahúsa, þeir sem reka þessa spilakassa, þrjá milljarða í umboðslaun. Þarna erum við að tala um á bara fjórum árum, rúma fimm milljarða bara við að halda úti þessari starfsemi. Kostnaðurinn við þessa fjáröflun,“ segir Alma.


Tengdar fréttir

Ís­lands­spil í harðri sam­keppni við ríkið um spila­kassana

„Það eru allir sammála um það að það hefur enginn af þessum aðilum sérstakan áhuga á því að hafa einhverja fjármuni af fólki sem er að berjast við spilafíkn. Ekki frekar en þeir sem reka skemmtistaði eða bari hafa áhuga á því að selja þeim áfengi sem eiga erfitt með að ráða við það,“ segir Þór Þorsteinsson formaður Slysavarnafélagsins Landsbjörg.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×