Innlent

Vara við því að unglingar safnist saman á kvöldin

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Börn og unglingar hafa safnast saman á kvöldin undanfarið á leikvöllum, svo sem á sparkvöllum og skólalóðum.
Börn og unglingar hafa safnast saman á kvöldin undanfarið á leikvöllum, svo sem á sparkvöllum og skólalóðum. Vísir/Vilhelm

Almannavarnir á höfuðborgarsvæðinu hafa sent frístundaheimilum bréf og lýst yfir áhyggjum sínum af hópamyndun unglinga á leiksvæðum á kvöldin. Segir í bréfi frá Þóru Kristínu Ásgeirsdóttur, deildarstjóra almannavarna á höfuðborgarsvæðinu, að ábendingar hafi borist þess efnis til almannavarna.

Ástæðan sé líklega gott veður undanfarið og jákvæðar fréttir af þróun mála er varðar baráttuna gegn kórónuveirunni og útbreiðslu hennar hér á landi sem fer minnkandi.

„Það er aftur á móti mjög mikilvægt að við höldum fókus og sofnum alls ekki á verðinum,“ segir Þóra Kristín í bréfinu.

„Viljum við hvetja ykkur öll til vitundar um að við verðum öll halda áfram að fara eftir fyrirmælum og sporna gegn allri hópamyndum.“

Frístundaheimilin hafa í mörgum tilfellum áframsent tilmæli almannavarna til unglinganna og foreldra þeirra.

Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn hrósaði krökkum sérstaklega á upplýsingafundinum í gær. Minnti hann þó á að enn væru tæpar þrjár vikur í að breytingar yrðu gerðar á samkomubanni.

Hrósaði hann sérstaklega þeim krökkum sem virða það og sýna þolinmæði í að hitta krakka sem eru ekki með þeim í bekk í skólanum.

„Krakkar þið eruð að standa ykkur vel, þið eruð frábær,“ voru lokaorð Víðis á fundinum í gær.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×