Innlent

Ríkið semur við Air Iceland Connect um flug til Egilsstaða og Ísafjarðar

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Vél á vegum Air Iceland Connect.
Vél á vegum Air Iceland Connect. vísir/vilhelm

Stjórnvöld segjast hafa samið við flugfélagið Air Iceland Connect um reglulegar flugsamgöngur til Egilsstaða og Ísafjarðar til og með 5. maí. Þau segjast að hámarki munu greiða 13 milljónir fyrir samninginn, mögulegar tekjur Air Iceland Connect af ferðunum muni lækka greiðslur.

Greint er frá þessu á vef stjórnarráðsins þar sem segir jafnframt að samningurinn geri ráð fyrir að farnar verði 3 til 6 ferðir vikulega milli Reykjavíkur og Egilsstaða en þrjár ferðir á viku milli Reykjavíkur og Ísafjarðar. Air Iceland Connect verður jafnframt heimilt að annast vöruflutninga í ferðum sínum.

Stjórnvöld segjast aukinheldur hafa gert verðkönnun meðal þriggja flugrekenda áður en gengið var að þessum samningi, sem samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og forstjóri Air Iceland Connect eiga að hafa undirritað rafrænt.

Þetta er ekki fyrsti sambærilegi samningurinn sem stjórnvöld hafa gert við félag á vegum Icelandir Group á síðustu dögum. Þannig sömdu þau jafnframt við Icelandair í upphafi mánaðar til að tryggja flug til Boston annars vegar og London eða Stokkhólms hins vegar. Ríkið telur að það muni greiða að hámarki 100 milljónir kr. vegna þess samnings.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×