Hópurinn marseraði í gegnum borgina tveimur dögum eftir að Karim Cheurfi skaut lögreglumanninn Xavier Jugele til bana.
Tveir lögreglumenn til viðbótar særðust í árásinni.
Árásarmaðurinn er sagður hafa lýst því yfir að hann vildi myrða lögregluþjóna.

Lögreglumaðurinn sem lést í árásinni
Xavier Jugele, maðurinn sem lést í árásinni á fimmtudag, var baráttumaður fyrir réttindum samkynhneigðra, segja franskir fjölmiðlar.Hann var upphaflega frá Loire-dalnum í Frakklandi en hafði starfað í höfuðborginni síðan árið 2014. Hann tók þátt í störfum lögreglunnar við Bataclan-tónleikastaðinn eftir að ISIS-liðar gerðu þar árás í nóvember 2015.